Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tel það rökrétt framhald að sólarljósið komi þarna inn. Þarna fáum við D-vítamín sem ella þyrfti að kaupa, við spörum okkur pening, A-vítamín líka jafnvel. Þetta er auðvitað allt hluti af þeirri hugmyndafræði að arður sem myndast í samfélaginu, hvernig sem hann er myndaður, renni inn í ríkissjóð. Þetta er bara einn hluti af því. Til þess að auðvelda það þá er allt gert einhvern veginn að eign þjóðarinnar; allar auðlindir sem nýttar eru, öll verðmætin sem þú getur skapað úr vindi, sólarljósi. Já, þú ert að nota sameiginlega auðlind, sameign þjóðarinnar, þú átt að borga, ekki bara tekjuskatt af arðinum og af framleiðslunni heldur líka annað og meira gjald og helst allt. Þetta er hugmyndafræði sem ég á bara mjög erfitt með að sætta mig við, eða ég get alveg sætt mig við hana, hún er búin að fylgja mér alveg frá því að ég fæddist en hún er auðvitað mjög hamlandi og skaðar samfélagið til lengri tíma litið. Þú getur tekið allt til þín en menn verða að átta sig á hvernig verðmæti verða til. Einstaklingurinn, hugmyndir hans, frumkvæði hans til að búa til verðmæti og fá að þróast, það er það sem skapar þessa velferð, ekki það að við stjórnmálamenn dælum hér öllu út og suður. Þetta er bara hugmyndafræði sem við erum enn að glíma við. Hún hvarf ekkert fyrir 30 árum eins og sumir menn halda, birtingarmyndin er bara aðeins öðruvísi. En þetta er alveg sama markmiðið, þ.e. að arðurinn allur af því sem skapað er, þeim verðmætum sem sköpuð eru, fari til stjórnmálamanna til að deila út. Það felur bara í sér dauðann fyrir íslenskt samfélag.