Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo sem alveg sammála stjórnmálafræðilegri greiningu hv. þingmanns á þessu máli og það er á margan hátt lýsandi fyrir pólitíkina sem við er að eiga. En ég boðaði það hérna áðan að ég myndi reyna að leita lausna, leita að einhverri millileið sem gæti þá sætt stjórnarflokkana. Við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að þetta mál er hér kynnt af þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, stjórnarflokksins sem fer með forsætisráðuneytið. Súrefni, hvernig verður það til? Ekki hvað síst úr plöntum, trjám, jurtum. Og hvað þurfa plönturnar til að búa til súrefnið? Þær þurfa kolefni. Gætum við hugsanlega jafnað þetta út með því að veita styrki til þeirra sem losa kolefni, næringuna fyrir plönturnar, og þannig fjármagnað, svona vegið og metið og fjármagnað súrefnisframleiðsluna þannig að það þyrfti ekki að skattleggja súrefnið að eins miklu leyti og ella væri?