Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:22]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þarf að meta öll áhrifin og það þarf að gera það vel. Svo er bara eftir atvikum hver það er sem stofnar til kostnaðar við að meta áhrifin. Það vill enginn slátra mjólkurkúnni sinni þannig að þeir sem eru að nýta hinar vissu auðlindir og annað vilja leggja mikla fjárfestingu eða hluta af fjárfestingunni í að gera ýmsar rannsóknir og meta áhrif og annað slíkt. Svo eru kannski þeir sem þekkja best til áhrifanna heimamennirnir og því tel ég mikilvægt að heimamennirnir, nærsamfélagið, fái þá alla vega nægt afgjald til að standa að þeim rannsóknum og könnunum og líka til þess að skipuleggja sig út frá áhrifunum, til að gera áætlanir um hvernig þau vilja nýta sitt land, hvernig þau vilja byggja upp sitt samfélag og hvaða áhrif einstaka þættir og nýting í þeirra nærsamfélagi hefur á þau. Af því að við höfum verið að ræða um sjávarútveginn hér þá höfum við þar opinberar rannsóknir sem eru hluti af stýringunni. En svo hvernig við nýtum þetta sem best og hagkvæmast og umhverfisvænast, það er mikið til fjárfest af greininni sjálfri. Þannig að þetta er alltaf eitthvert samspil þarna á milli. En ég tel bara að hagsmunirnir fari saman þarna um að gera sem mestar rannsóknir á nýtingunni. Um leið og eitthvað er farið að skemma umhverfið þá er komin neikvæð umræða og þá ertu farinn að skemma mjólkina.