Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Búfræðingurinn sem hér stendur skilur það að þú getur alveg náð mjólk út úr vanhöldugri kú en þú þarft að tryggja að hún njóti þess sem hún þarf að njóta svo að hún skili því sem hún á að skila. Þar er ég ekki minnst að hugsa bara um velferð skepnunnar, svo að ég noti nú þessa líkingu áfram frá hv. þingmanni.

Varðandi takmörkuðu gæðin, sannarlega, það þarf einhvern veginn varðandi rannsóknir og undirbúning og annað — á það hefur líka verið bent að við höfum heldur ekki staðið okkar plikt nægilega vel í því að sinna þeim grunnrannsóknum og þeirri þekkingu sem við þurfum að afla, sem er þá hugmyndin hér að þetta gjald standi undir.

Og af því að við erum að ræða orkugeirann þá er ágætt að benda á að sú jarðfræðikortlagning sem til er á Íslandi byggist að mjög stórum hluta á gögnum sem er aflað vegna orkuvinnslu, ekki vegna nauðsynlegrar þarfar á kortlagningunni utan fýsilegra orkuvinnslusvæða. Þannig að ég tel til að mynda að stjórnvöld hafi ekki staðið sína plikt nægilega vel þegar kemur að því heldur byggjum við það nær alfarið á þeim rannsóknum sem eru unnar á forsendum einhverrar ákveðinnar nýtingar eða ákveðinnar vinnslu.

Hv. þingmaður kom inn á það hér áðan að þau sem búa yfir þessum takmörkuðu gæðum njóti þá afrakstursins eða árangursins eða teknanna af orkuvinnslu. Með fullri virðingu fyrir staðþekkingu og mikilvægi hennar, ég ber mikla virðingu fyrir henni og ég er þeirrar skoðunar að við værum ekki endilega á góðum stað ef við hefðum hana ekki, er það nú svo að sem samfélag og þjóð höfum við undirgengist alls konar alþjóðlegar skuldbindingar, til að mynda er varðar vernd líffræðilegs fjölbreytileika, landslags, víðerna og þar fram eftir götunum. Telur hv. þingmaður að hægt sé og/eða að reynslan sýni að horfa eigi til ákvörðunar um ráðstöfun á þessum takmörkuðu gæðum, sem sannarlega geta verið bundin innan vébanda einstakra sveitarfélaga, með stóru myndina að leiðarljósi, þ.e. hinar stóru alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist og (Forseti hringir.) að mínu mati, þarf að horfa á í heildarsamhengi þess lands sem um ræðir sem er allt Ísland?