Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

opinber fjármál.

93. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, er varðar styrki og framlög ráðherra. Mál þetta flytur sú sem hér stendur en einnig hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þau Logi Einarsson, Kristrún Frostadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.

Frumvarpið hljóðar svo, 1. gr.:

„Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Þrátt fyrir heimild skv. 1. mgr. er ráðherra óheimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem hann ber ábyrgð á átta vikum fyrir auglýstan kjördag kosninga til Alþingis.“

2. gr. varðar það að lögin skuli þegar öðlast gildi.

Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi að gefnu tilefni.

Í aðdraganda lýðræðislegra kosninga er nauðsynlegt að mati flutningsmanna að tryggja að jafnræði sé sem mest milli framboða. Sú hætta er fyrir hendi að sitjandi ráðherrar nýti sér forréttindastöðu sína til að afla sér hylli kjósenda hvort tveggja með aðgangi að fjölmiðlum en ekki síður með aðgangi að opinberu fjármagni. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um opinber fjármál er ráðherrum heimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Í aðdraganda alþingiskosninga hefur hins vegar borið á því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hefji úthlutanir til einstakra mála í stórum stíl og það jafnvel allt fram að kjördegi og má ætla að svo sé til að vekja athygli á sér og sínu framboði, einhvers konar vinsældakosning. Það hlýtur að teljast ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé og aðstaða misnotuð með þessum hætti. Af þeim sökum telja flutningsmenn nauðsynlegt að setja takmarkanir á úthlutun styrkja og framlaga í aðdraganda kosninga þannig að ráðherrum verði, verði frumvarp þetta samþykkt hér á Alþingi, óheimilt að veita slíkt fjármagn úr opinberum sjóðum síðar en átta vikum fyrir kjördag. Er þetta gert í þeim tilgangi að ekki megi efast um tilgang fjárveitinga, að gætt verði jafnræðis milli móttakenda hins opinbera fjármagns úr hendi ráðherra og ekki síður til að takmarka misvægi aðstæðna frambjóðenda til Alþingis. Flutningsmenn telja með öðrum orðum að þetta sé nokkurs konar spillingarvörn og augljóst mál að þetta er í þágu þjóðar, í þágu almennings, til þess að ekkert sé hægt að valsa um sveitir og bæi landsins með fjármuni almennings til að reyna að ná sér í nokkur aukaatkvæði.

Þetta frumvarp er einfalt, það þarf ekki að orðlengja þetta og er lagt til að málið gangi til fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.