153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að taka upp hér málefni heilbrigðisþjónustunnar og sérstaklega málefni Sjúkrahússins á Akureyri og ég skal reyna að halda mig við málefni Sjúkrahússins á Akureyri. En auðvitað er þetta, eins og hv. þingmaður kom inn á, í samhengi við heilbrigðisþjónustu því hann kom inn á fjölmarga þætti eins og mönnun. Það er skortur á sérhæfðu starfsfólki og við erum innan kerfisins að keppa um þennan takmarkaða mannauð. Því hefur Sjúkrahúsið á Akureyri fundið fyrir og það er hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Staðan hefur þó skánað, þó að það hafi verið erfitt undanfarið að ráða inn nýja hjúkrunarfræðinga, sérstaklega með tilkomu háskólans og hjúkrunarfræðinámsins þar.

En að fjármögnuninni. Þar er uppsafnaður vandi til ansi margra ára sem hefur verið mætt af svigrúmi með sjúkrahúsinu. Við höfum veitt aukafjármagn til sjúkrahússins, m.a. til að klára uppbyggingu á tengigangi. Við höfum klárað þar sjúkrahússapótekið með aukafjármagni. Við fórum í mjög góða vinnu og samráð með sjúkrahúsinu við að horfa á fjármálin og höfum mætt þeim vel þar. Við settum aukafjármagn, 250 milljónir, í fjárlög þessa árs milli umræðna og það mætir að stórum hluta þessum halla sem hefur verið þannig að það á ekki að þurfa að loka á Kristnesi. Við höldum áfram að vinna þetta náið með sjúkrahúsinu þannig að það hefur ýmislegt jákvætt verið gert, m.a. á fjármálahliðinni. (Forseti hringir.) En ég er meðvitaður um þann vanda sem hefur birst í því að ráða, þrátt fyrir auglýsingar eftir hjúkrunarfræðingum.