Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrri hluta árs 2021 ritaði þáverandi forseti Alþingis svohljóðandi:

„Forsætisnefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar beiðni Jóhanns Óla Eiðsson, blaðamanns á Viðskiptablaðinu, um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda vegna eftirlits með framkvæmd samnings fjármála- og efnahagsráðherra og Lindarhvols og endurskoðun ársreikninga félagsins. Um aðgang almennings að gögnum um stjórnsýslu Alþingis fer samkvæmt upplýsingalögum um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis. Með vísan til 5. gr. upplýsingalaga hyggst forsætisnefnd veita Jóhanni Óla aðgang að greinargerðinni.“

Og þar með var sú ákvörðun tekin. Eftir þetta hefur forsætisnefnd Alþingis tekið fjölmargar ákvarðanir samhljóða, þ.e. að veita aðgang að þessu gagni. Nú hefur núverandi forseti Alþingis hins vegar ákveðið að beita neitunarvaldi sínu gegn jákvæðari afstöðu allra í forsætisnefnd og ég skora á fulltrúa stjórnarliða sem eiga sæti í forsætisnefnd að koma hingað upp og gera grein fyrir atkvæði sínu. Ég held að (Forseti hringir.) það sé gott að heyra hvað gerðist á þingflokksfundum stjórnarflokkanna hér fyrr í dag, hvers vegna þeir hafi breytt um afstöðu frá því á fundum sínum í morgun.