Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[19:02]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og þessar umræður sem eru að skapast hérna. Það er alveg hárrétt sem kom fram í hennar máli að við þurfum að vinna saman að því að vinna gegn verðbólgunni og til þess þurfum við í rauninni samhent átak allra aðila. Jafnvægi á markaði er afar mikilvægt og breytingar á samkeppnisumhverfi einnar kjötgreinar mun hafa áhrif á allar aðrar. Tollvernd er afar mikilvægur hluti af ytri starfsskilyrðum íslenskan landbúnaðarins. Þegar verið er að ræða afnám og lækkun tolla er mikilvægt líka að horfa á heildarmyndina og að við sjáum hvaða áhrif slíkt myndi hafa á innlenda framleiðslu og eins hver ávinningurinn yrði.

Það sem mig langar aðeins að koma inn á er varðandi innflutning og samkeppnisstöðu íslenskra bænda. Mig langar aðeins að beina orðum mínum til hæstv. ráðherra um hvernig við gerum samkeppnina réttlátari en er í dag. Þá er ég að meina varðandi aðbúnað dýra, starfsskilyrði og m.a. líka sýklalyfjanotkun erlendis, varðandi það sem við flytjum inn miðað við þær miklu kröfur sem við gerum til bænda, eðlilega, hér á landi.