Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mikilvægu mál í þinginu. Það er okkur flestum hér efst í huga að skapa jarðveg þar sem hagsæld íslenskra heimila getur haldið áfram að vaxa líkt og hún hefur gert af miklum krafti undanfarin ár. Þannig hefur kaupmáttur launa aukist um 46% frá árinu 2013 — 46%. Kaupmáttur láglaunafólks hefur aldrei verið meiri en einmitt nú. Starfandi fólki hefur fjölgað um 38.000 á þessum áratug. Húsnæðiskostnaður hefur aldrei verið minna íþyngjandi eins og hann mældist í fyrra í lífskjararannsókn Hagstofunnar, og hefur lækkað markvert meðal leigjenda frá árinu 2019. Íbúðum í byggingu fjölgaði um þriðjung í fyrra og hefur líklega aldrei fjölgað jafn mikið. Frá því 2016 hafa stjórnvöld veitt stofnframlög til 3.500 hagkvæmra leiguíbúða fyrir lágtekjufólk. Tekjuskattur einstaklinga var lækkaður í heildina um 20 milljarða á árunum 2020 og 2021 og þeirri skattalækkun var sérstaklega beint til fólks með lægri tekjur. Fólk á vinnumarkaði hefur svo almennt fengið töluverðar kjarabætur undanfarin ár og laun hækkað umfram það sem sést hefur í nágrannaríkjum, um það verður varla deilt.

Kaupmáttur hefur haldið áfram að vaxa undanfarin ár og hann gerði það meira að segja líka í heimsfaraldrinum og þá einna helst hjá þeim tekjulægstu, ólíkt því sem átti við í nágrannalöndum okkar. Því hafa stjórnvöld verið að bregðast við aukinni verðbólgu undanfarin misseri með því að veita skjól fyrir þá sem eru sérstaklega viðkvæmir. Þetta hefur m.a. falist í mikilli hækkun húsnæðisbóta, vaxtabóta, barnabóta og bóta almannatrygginga, fyrir utan auðvitað allar sérstöku Covid-aðgerðirnar sem voru hugsaðar til að veita skjól fyrir þá sem voru t.d. að missa vinnu eða áttu á hættu að missa vinnu.

Staðan á rekstri heimilanna gagnvart fjármálakerfinu er sú að vanskil á lánum bankanna til heimila eru í algjöru lágmarki, en aðeins um 1% af lánum til heimila voru í vanskilum í október. Það er bara það lægsta sem við sjáum í svona mælingum. Atvinnuleysi er nú um 3,7%; það er meira heldur en við sáum best, segjum á árinu 2017, og atvinnulausum hefur verið að fækka frá því á Covid-tímanum um nærri 14.500 á tveimur árum. Þetta eru ekki bestu tölur sem við höfum séð en mikil bæting frá því sem var orðið sjálfstætt áhyggjuefni.

Þetta er ég nú allt saman að rekja vegna þess að þetta er ákveðinn upphafspunktur þegar við erum að koma inn í verðbólgukúfinn. Það er alls ekki þannig að ég sé með þann málflutning að verðbólgan sé almenningi í landinu að kenna, langt frá því. Það vekur hins vegar að sjálfsögðu mikla athygli á hversu breiðum grundvelli verðbólgan er að mælast. Þegar við skoðum undirliði vísitölunnar, þá sjáum við að næstum þrír fjórðu allra undirliða eru að hækka meira en 5%, sem segir mér að þetta er að gerast á mjög breiðum grunni. Ef við lítum aðeins í kringum okkur þá er það nú merkileg staðreynd að verðbólga er enn þá minni hér en víðast hvar í Evrópu undanfarna 12 mánuði. Svo dæmi sé tekið hefur samræmd vísitala neysluverðs hækkað um 8% á Íslandi en 10% í Evrópusambandinu. Við erum því m.a. að verða fyrir áhrifum af þessu.

Ekkert af þessu breytir þó því að verðbólgan, eins og hún er að mælast núna, er verulega mikið áhyggjuefni og það er mikið á sig leggjandi til að slá verðbólguna niður. Það er hárrétt hjá málshefjanda hér að það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir heimilin í landinu, það skiptir sömuleiðis miklu máli fyrir atvinnustarfsemina og það skiptir máli fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin, vegna þess að verðbólga mun á endanum leiða út í hærri fjármagnskostnað. Allt skiptir þetta alveg sérstaklega miklu máli vegna þess að það eru nokkuð viðkvæmir tímar fram undan á vinnumarkaði og kjarasamningar opnir.

Margar spurningar eru bornar hér upp og ég skal reyna að bregðast við þeim í þessari lotu og næstu. Spurt er um leigubremsur. Ég hef aðallega haft áhyggjur af því að öll slík inngrip í leigumarkaðinn myndu á endanum verða til þess að draga úr framboði, sem yrði mjög slæmt. Við erum ekki að boða það að í opinberum fjármálum verði farið í flatan niðurskurð, en ég hef hins vegar sagt að við getum ekki séð þann vöxt í ríkisútgjöldum sem hefur verið á undanförnum árum. Það er ekki hægt að horfa upp á sama vöxtinn, enda er ekki gert ráð fyrir slíkum vexti í gildandi fjármálaáætlun.

Það er enginn frasi þegar maður segir að nú þurfi allir að snúa bökum saman. (Forseti hringir.) Það er bara skynsemi að tala á þann veg. Ég vonast til að við getum hér í þinginu eflt samstöðu meðal þjóðarinnar um það að grípa til skynsamlegra ráðstafana svo við getum endurheimt lægri verðbólgu og lægri vexti og viðhaldið efnahagslegum stöðugleika.