Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu sem ég tel afar mikilvæga. Til að byrja með langar mig að segja að ég hef miklar áhyggjur af þróun mála og því bakslagi sem við finnum fyrir öll, held ég, ef við opnum augu okkar og eyru, sem er að verða á umræðunni í íslensku samfélagi sem ég held að sé ákveðin afleiðing af skautun í alþjóðasamfélaginu, því miður. Ég var nýlega á fundi ÖSE-þings í Vínarborg og þar var þetta m.a. til umræðu, þessi mikla skautun í samfélögunum og hvað í rauninni valdamikið fólk er farið að leyfa sér að segja í opinberri umræðu og þess vegna hjó ég aðeins eftir því hér í 3. tölul. að þar er talað um netnámskeið sem vinnur gegn hatursorðræðu.

„Útbúið verði netnámskeið með grunnfræðslu um eðli og afleiðingar hatursorðræðu auk fræðslu um mismunun og áreitni vegna þeirra þátta sem íslensk jafnréttislöggjöf tekur til …„ o.s.frv.

„Námskeiðið verði sérstaklega í boði fyrir:

1. kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum og starfsfólk sveitarfélaga,

2. starfsfólk Stjórnarráðsins og stofnana þess,

3. skólastjórnendur og kennara, sem og leiðbeinendur og þjálfara í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, 4. dómara, ákærendur og lögreglu,

5. starfsfólk á almennum vinnumarkaði.“

— En ekki kjörna fulltrúa á Alþingi. Ég verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við leyfum okkur að tala hérna inni og hvernig við leyfum okkur að kynda undir ýmiss konar skautun og hatursorðræðu beinlínis, ekki kynda undir heldur beinlínis ástunda hatursorðræðu í þingsal. Það leyfa ákveðnir þingmenn sér að mínu mati. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvers vegna kjörnir fulltrúar á Alþingi eru ekki þarna undir og hvort hún geti að einhverju leyti tekið undir áhyggjur mínar?