Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:09]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og að hún sé komin á dagskrá. Einnig ætla ég að byrja á því að segja að frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðisins, fjórða valdið. Þeir veita okkur sem hér sitjum nauðsynlegt aðhald og draga athyglina að þeim málefnum sem brýnust eru hverju sinni.

Fjölmiðlar eru allt í senn helsti farvegur og vettvangur samfélagslegrar umræðu. Því ber stjórnvöldum að verja sjálfstæði þeirra og ritstjórnarlegt frelsi í hvívetna. Þetta á við í stóru og smáu. Þannig geta fjölmiðlar ljáð þeim rödd sem minnst mega sín, vakið athygli á því sem miður fer og haldið okkur öllum ábyrgum fyrir orðum okkar og gjörðum og á það treystum við. Til þess þarf fjárhagsstaða þeirra að vera trygg en án fjármagns er erfitt að halda úti starfseminni og í fámennu landi er erfitt að treysta á sölu blaða. Þetta er kunnuglegt stef. Ég vil þó halda á lofti stöðu héraðsmiðlanna, en þeir eru oftar en ekki í miklu návígi við ákvarðanir sem varða hag alls almennings og náttúru landsins. Hér má t.d. nefna áform um vindmyllur og sjókvíaeldi. Við verðum þess vegna að tryggja fjárhagslega burði fjölmiðla, allra fjölmiðla, til að sinna því mikilvæga hlutverki sem við ætlum þeim í þágu lýðræðis og lýðræðislegrar og upplýstrar umræðu.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með í samfélaginu undanfarin misseri að frelsi fjölmiðla til að sinna hlutverki sínu hefur ítrekað verið dregið í efa, ekki bara af einkaaðilum heldur einnig dómstólum. Nýleg umfjöllun Heimildarinnar leiddi í ljós að fyrirtækið Norðurál hafði dreift misvísandi upplýsingum og áróðri með skipulögðum hætti með það að markmiði að hafa áhrif á almenningsálitið. Ekki er annað hægt en að minnast á hið svonefnda Samherjamál, en framgangan gagnvart ákveðnu fjölmiðlafólki í tengslum við umfjallanir um það mál var vægast sagt skelfileg.

Ásakanir, áreitni og hótanir í garð fjölmiðlafólks eru alvarlegt mál og mikilvægt er að öryggi þeirra sé tryggt í hvívetna. Um allan heim horfum við upp á mikla pólaríseringu í umræðunni og mikil skautun á sér stað í þjóðmálaumræðu og stjórnmálum. Þetta veldur því að almenningur veigrar sér jafnvel við að ræða fréttir um stjórnmál. Grunnforsenda þess að koma í veg fyrir slíka þróun er að standa vörð um tjáningarfrelsið og tryggja fjölmiðlum og blaðamönnum öruggt starfsumhverfi þar sem þeim er gert kleift að rækja skyldur sínar án þess að eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti, áreiti eða lögsóknum. Við höfum orðið vitni að mjög alvarlegum atburðum í kjölfar starfa fjölmiðla og þá er nærtækt að nefna dæmi eins og þegar fjölmiðlum var varnað að sinna starfi sínu við brottflutning fólks á Keflavíkurflugvelli. Blaðamenn sem boðaðir voru í skýrslutöku vegna umfjöllunar um hina svokölluðu skrímsladeild Samherja telja margir að með því hafi verið gerð aðför að frjálsri fjölmiðlun í landinu.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er geta fjölmiðlanna til að verja fjölmiðlafólk sem fjallar um erfið mál fyrir áreiti og/eða hótunum sökum vinnu sinnar, sér í lagi þegar efnisdrög snúa að valdamiklum einstaklingum eða fyrirtækjum sem nota skoðanamyndandi aðferðir til að hafa áhrif á samfélagsumræðuna eins og nýleg dæmi sýna?

Það er hlutverk okkar hér á hinu háa Alþingi að skapa það lagaumhverfi og þær leikreglur sem gilda eiga í samfélaginu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er ráðherra kunnugt um áform sem lúta að því að efla öryggi blaðamanna með það að markmiði að vinna gegn áreitni eða hótunum sem þeir gætu orðið fyrir sökum vinnu sinnar?

Á undanförnum árum hefur umræðan um falsfréttir og upplýsingaóreiðu aukist. Er ráðherra kunnugt um að slíkir miðlar hafi starfsemi hér á landi, hljóti styrki til jafns við aðra miðla og hvort ástæða sé að skerpa á úthlutunarreglum með tilliti til þessa?