Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[12:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu máli og fagna því mjög af því að ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir, að vegabréfin eru ekki mjög svo þjál í veski frá degi til dags og það eru jú ekki allir með ökuréttindi. Það er val hvers og eins að sækja sér einhver slík réttindi. Þess vegna er mjög brýnt að við komum þessu í lag.

Mig langar að spyrja aðeins út í það sem kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að andlitsmynd og fingraför umsækjanda, og eftir atvikum aðrar lífkennaupplýsingar hans, skuli fylgja umsókn um nafnskírteini. Mig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað það þýðir; aðrar lífkennaupplýsingar?

Svo hjó ég eftir að hæstv. ráðherra — og sé auðvitað í þessu að þetta er eingöngu fyrir íslenska ríkisborgara. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að þau skírteini sem erlendir borgarar, sem hafa leyfi til dvalar hér á landi, fá alla jafna hjá stjórnvöldum komi þá þeim til handa. EES-borgarar eru með einhver annars konar skilríki sem eru svona EES-skilríki. Eru þau skírteini sem eru gefin út af útlendingayfirvöldum hér á landi sambærileg? Teljast þau fullnægjandi skilríki?

Svo að lokum vil ég hrósa höfundum frumvarpsins fyrir að hafa farið í svokallað MÁP, eða mat á áhrifum á persónuvernd, í þessu frumvarpi. Það var einmitt mikið tekist á um það varðandi önnur frumvörp sem við höfum verið að fjalla um og ég held að það sé bara algerlega til fyrirmyndar að þetta sé gert með þessum hætti.