Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Björgunarsveitirnar eru svo sannarlega að gera gríðarlegt gagn, en er eðlilegt að draga úr getu Landhelgisgæslunnar og ætla sjálfboðaliðum björgunarsveitanna að sinna öryggis- og eftirlitshlutverki Landhelgisgæslunnar? Hvaða lagastoð er fyrir slíkri útvistun lögbundinna verkefna? Er verið að greiða fyrir þá þjónustu eða skal það fjármagnað með flugeldasölu? Er þetta kannski liður í að útrýma með öllu hinum samningslausu flugmönnum Gæslunnar sem hafa nauðsynlega þjálfun til björgunar og eftirlits? Gríðarleg þjálfun er þar að baki.

Það er rétt sem hv. þm. Ingibjörg Isaksen sagði, þetta er líka byggðamál því að þyrlur frá Reykjavík geta ekki sinnt nauðsynlegum björgunaraðgerðum langt úti á hafi. En það getur flugvél Landhelgisgæslunnar, ef þannig er búið um hnútana að hún sé ekki í stöðugri útleigu niðri við Miðjarðarhaf til að hægt sé að borga rekstrarreikninga Landhelgisgæslunnar.

Þetta varðar líka þjóðaröryggi, og það þjóðaröryggi á ófriðartímum. Hæstv. dómsmálaráðherra segir flugvélina TF-SIF ekki hafa verið mikið notaða að undanförnu, en það er bein afleiðing af sveltistefnu ríkisstjórnarinnar. Vélin er í útleigu til að hægt sé að borga reikningana. Þetta er vanfjármögnun ríkisstjórnarinnar. Þá er ekki hægt að fara í nauðsynleg sjúkra- og eftirlitsflug, og við skulum muna að í síðustu viku kom ákall um að flytja sjúkling til Svíþjóðar í nauðsynlega líffæragjöf. Nei, vélin var ekki heima.

Og hvaða eftirliti sinnir Gæslan? Jú, hún sinnir líka eftirliti með fiskveiðilögsögunni okkar, en svo kaldhæðnislega vill til að veiðigjöldin, sem útgerðirnar greiða vegna nýtingar á sameiginlegum auðlindum okkar, duga ekki til fyrir þetta eftirlit. (Forseti hringir.) Það er einhvern veginn allt á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn; sveltistefnan er alltumlykjandi.