Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um skilvirkni í umræðu um þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra og hefur það ekki síst verið notað þegar um er að ræða þá tillögu að fella niður alla grunnþjónustu og húsnæðisþjónustu við fólk sem hingað er komið, 30 dögum eftir að fólk hefur fengið endanlega synjun. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta, niðurfellingu þjónustu. Þá ekki heilbrigðisþjónustuna og ekki þær breytingartillögur sem meiri hlutinn segist vera að leggja til, en er þó óþarfi af því að það er í lögunum og var aldrei verið að leggja til, þ.e. að bráðaheilbrigðisþjónusta falli niður heldur það að fella niður húsnæðisstuðning og stuðning við grunnframfærslu.

Við atkvæðagreiðslu í 2. umræðu kom hæstv. félagsmálaráðherra í pontu í atkvæðaskýringu og fullyrti að grunnþjónusta til húsnæðis og framfærslu myndi ekki falla niður, enda færi sú þjónusta til sveitarfélaganna og yrði greidd af ríkinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig þetta getur samræmst markmiðum dómsmálaráðherra og meiri hluta um aukna skilvirkni í málaflokknum og hvort hv. þingmaður telji að með þessu sé verið að beita einhverjum blekkingum með orðunum skilvirkni og með því að þjónustan falli niður, ef hún er ekki að falla niður. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér?