Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Sá ráðherra sem kom hér upp er sá ráðherra sem fer með þjónustu við fólk, vissulega ekki eftir að það hættir að vera umsækjendur um vernd. Ég vil því ítreka spurningu mína: Var hæstv. ráðherra að blekkja þingheim þegar hann lýsti því yfir að þjónustan myndi ekki falla niður heldur myndi þjónustan fara til sveitarfélaganna? Eða er meiri hlutinn, þar á meðal hv. þingmaður, að beita blekkingum þegar hann er hér að halda því fram að þjónustan falli niður? Hvort fellur þjónusta til húsnæðis og framfærslu niður að 30 dögum liðnum eða ekki? Mun einhver stofnun, eitthvert yfirvald á Íslandi, taka við þessari þjónustu, veita þeim húsaskjól og veita þeim framfærslu eða ekki? Ég vil bara fá skýr svör við þessu og ekkert fara í einhverja langloku um eitthvað annað sem ég er ekki að spyrja um, takk fyrir.