153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér komin í 3. umr. um þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra og höfum fengið nýtt nefndarálit frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem mig langar aðeins að fara í saumana á, en þar er í raun ekki um að ræða neinar breytingar heldur áréttingu á lögfestum reglum og almennri umfjöllun sem segja má að hafi í raun enga raunverulega þýðingu aðra en að hvítþvo þá þingmenn Vinstri grænna og Framsóknar sem talað hafa fyrir mannúðlegri stefnu í málefnum fólks á flótta. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að það eru nokkrar breytingartillögur þarna, eða sem er stillt upp sem breytingartillögum, skulum við segja. Það er fjallað um það í nefndaráliti að líta eigi til fyrsta griðlands án þess þó að gerðar séu neinar breytingar á ákvæðinu. Það er vísað til ábendinga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kom fyrir nefndina og sendi umsögn og meiri hlutinn tekur undir ábendingarnar án þess þó að gera breytingar í samræmi við þær. Þess í stað er vísað til minnisblaðs hæstv. dómsmálaráðherra og greinargerðar með frumvarpinu þar sem fram komu skýringar sem eru beinlínis í andstöðu við þau atriði sem Flóttamannastofnunin gerði athugasemdir við.

Fyrir það fyrsta þá er ekki enn þá gerð krafa um að viðtökuríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki gerð krafa um að umsækjandi hafi gilt dvalarleyfi í viðtökuríki eða það lykilatriði að viðtökuríki hafi samþykkt að taka við umsækjanda. Það er algjört lykilatriði, og ég hef talað um það bæði við 1. umr. og 2. umr., að þetta skilyrði sé uppfyllt og er það í raun forsenda fyrir því að ákvæðinu verði beitt á skilvirkan hátt. En engar breytingar eru lagðar til af meiri hluta í þessa átt. Mig langar að fara aðeins yfir umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta. Þar segir:

„Þó svo að tillagan skilgreini ekki þær forsendur sem liggja til grundvallar skilgreiningunni „fyrsta land þar sem alþjóðleg vernd er veitt“ hefur Flóttamannastofnunin staðfastlega haldið því til haga að til þess að nota megi hugtakið „fyrsta land þar sem alþjóðleg vernd er veitt“ þurfi að meta á einstaklingsgrundvelli hvort flóttamaðurinn muni

a. fá aftur aðgang inn í „fyrsta land þar sem alþjóðleg vernd er veitt“;

b. fá rétt til löglegrar dvalar; og

c. njóta meðhöndlunarstaðla sem eru í samræmi við flóttamannasamninginn frá 1951 …“

Aðeins er hægt að vísa umsókn frá án efnislegrar meðferðar og senda umsækjandann aftur til fyrsta lands þar sem alþjóðleg vernd er veitt þegar búið er að uppfylla þessi skilyrði í tilfelli hvers einstaklings. Ekkert af þessu er tekið inn í frumvarpið. Ég ætla að leyfa mér að halda áfram að lesa hér upp úr umsögn Flóttamannastofnunar, sem er auðvitað sú alþjóðastofnun sem þekkir best til málaflokksins, miklu betur en við öll, örugglega miklu betur en við öll til samans. Þar er verið að fjalla um svokallað öruggt þriðja ríki, en eftirfarandi kemur fram, með leyfi forseta:

„Áður en brottflutningum kemur er mikilvægt að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort hið þriðja ríki muni, í samræmi við viðeigandi staðla alþjóðalaga:

a. hleypa manneskjunni (aftur) inn í landið,“ — en það er ekkert um það í þessu frumvarpi, ekki neitt —

„b. veita manneskjunni sanngjarna og skilvirka málsmeðferð til að ákvarða réttarstöðu hennar“ — eða hans — „sem flóttamanns og aðgang að öðru sem tilheyrir alþjóðlegri vernd,“ — ekkert um þetta —

„c. leyfa manneskjunni að vera í landinu á meðan verið er að ákvarða réttarstöðu hennar,“ — ekkert um þetta —

„d. leyfa manneskjunni að njóta meðhöndlunarstaðla sem eru í samræmi við flóttamannasamninginn frá 1951 …“ — ekkert, ekkert um þetta —

„e. muni viðurkenna réttarstöðu manneskjunnar sem flóttamanns, ef metið er að hún sé flóttamaður, og veita henni leyfi til löglegrar dvalar …“

Mögulega um þetta, af því að það eina sem stendur af skilyrðunum er að umsækjandi geti sótt um. Það geta allir á jörðinni sótt um hér á Íslandi en það er auðvitað bara pínulítið brot sem fær hér vernd, þannig að það að geta mögulega sótt um hefur enga þýðingu í þessu máli.

Í nefndaráliti meiri hlutans er talað aðeins um fjölskyldusameiningu. Þar er fjallað um breytingar á ákvæðum um fjölskyldusameiningu og þar er að finna hina ótrúlegu setningu, með leyfi forseta:

„Með 13. gr. frumvarpsins er því ekki verið að draga úr möguleikum nánustu aðstandenda á fjölskyldusameiningu heldur er verið að afmarka hverjir geta fengið alþjóðlega vernd á þeim grundvelli að tengjast aðila sem hlotið hefur slíka vernd.“

Hvað þýðir þetta? Hér er meiri hlutinn að halda því fram að það sé ekki verið að draga úr möguleikum nánustu aðstandenda heldur afmarka hverjir geti fengið alþjóðlega vernd. Að afmarka rétt þýðir auðvitað ekkert annað en að takmarka rétt. Það eru engar breytingar boðaðar á ákvæðinu þrátt fyrir skýr tilmæli frá Flóttamannastofnuninni um mikilvægi þess að viðhalda réttindum endurbúsettra flóttamanna til fjölskyldusameiningar.

Þá skulum við tala aðeins um mat á hagsmunum barna. Í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað sérstaklega um mat á hagsmunum barna og lögð til breytingartillaga sem að mati meiri hlutans á að auka rétt barna þar sem nú verði skylt að framkvæma sérstakt hagsmunamat þar sem hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi og á að bæta því við mat á hagsmunum barna.

Rétt er að taka fram hér fyrir þingheimi að í 5. mgr. 37. gr. núgildandi laga um útlendinga er kveðið á um nákvæmlega sömu skyldu, nákvæmlega. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við mat […] — samkvæmt 1. og 2. mgr. í málum sem varða börn fylgdarlaus sem og önnur — skal Útlendingastofnun líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt grein þessari.“

Í gær vorum við í stjórnarandstöðunni spurð hvort við gleddumst ekki yfir því að það ætti að framkvæma nýtt mat á hagsmunum barna. Þetta er ekki nýtt, þetta er ekki breyting, þetta er í lögunum og þetta hefur verið skylda stjórnvalda árum saman. Stjórnvöld hafa um margra ára skeið framkvæmt sérstakt mat á hagsmunum barna. Stjórnvöldum er skylt að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi, þeim hefur verið það skylt árum saman. Í nefndarálitinu er réttilega bent á að í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga segi að hagsmunir barns skuli hafðir að leiðarljósi í málum um alþjóðlega vernd og breytingin felur þess vegna ekki neitt í sér, enda er kveðið á um nákvæmlega þetta í núgildandi lögum. Það eru engar efnislegar breytingar er varða réttindi barna. Það er ekki um að ræða áréttingu á því að hagsmunir barna skuli vega þyngra. Það er ekki verið að gera auknar kröfur til þess að börn eigi meiri rétt, ekki neitt. Það er ekkert, það engin breyting. Það er ekki verið að auka með neinum hætti réttindi barna. Það er heldur ekki kveðið á um að gera skuli minni kröfur til barna varðandi skoðun þeirra á aðstæðum. Nei, það er bara ekki verið að gera neitt.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það sem hér er undir ekki börn á flótta og réttindi þeirra heldur einmitt það að þingmenn Vinstri grænna og Framsóknar þurfa að halda andlitinu. Gagnvart hverju? Jú, gagnvart því að hafa skreytt sig með barnamálaráðherra undanfarin ár og geta þannig krosslagt fingur fyrir aftan bak og fullvissað grasrót sína um að þeir hafi barist fyrir og fengið í gegn aukin réttindi fyrir börn á flótta. Að nota börn á flótta sem sýndarskiptimynt í því skyni að halda saman handónýtu ríkisstjórnarsamstarfi er svo lágt lagst að mér er eiginlega orða vant.

Tökum annað dæmi. Meiri hlutinn gerir aðra minni háttar breytingu sem hann ætlar að telja almenningi trú um að muni bæta réttindi barna á flótta. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að meiri hlutinn telji rétt að tilgreina jafnframt að við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum umsækjanda sé heimilt að horfa til ungs aldurs einstaklings sem náð hefur 18 ára aldri en hefur sannarlega verið fylgdarlaust barn við komuna til landsins.

Herra forseti. Rétt er að taka fram að sambærilegt ákvæði hefur verið í reglugerðum útlendinga frá árinu 2017. Lengi vel taldi kærunefndin sig bundna af þessu ákvæði en síðastliðið haust taldi nefndin að ákvæðið sem væri orðað á nákvæmlega sama hátt og meiri hluti nefndarinnar segist núna vera að bjarga börnum á, ekki fela í sér neina skyldu heldur eingöngu heimild. Og nú á að lögfesta þessa heimild — enga skyldu.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu kærunefndar hefði meiri hlutanum verið í lófa lagið að taka fram í breytingarákvæðinu að við mat Útlendingastofnunar væri stofnuninni núna skylt að horfa til ungs aldurs einstaklings sem náð hefur 18 ára aldri en hefur sannanlega verið fylgdarlaust barn við komuna til landsins. Meiri hlutinn gerir ekkert með þetta, ekki neitt. Það var um þetta rætt í nefndinni. Ekki neitt.

Þannig er meiri hlutinn. Í stað þess að leggja til breytingar sem auka réttindi barna á flótta eða tryggja rétt barna á flótta þá ákveða þau að beina því til ráðherranefndar um málefni innflytjenda að gera kannski eitthvað einhvern tímann og vísa í skýrslu sem hafi komið út 2020. Og meiri hlutinn, löggjafinn sjálfur, segist taka undir sjónarmið sem komu fram í skýrslunni um að gera ekki neitt, til að tryggja réttindi þessara barna. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu þar sem stjórnvöldum verður gert skylt að horfa til ungs aldurs umsækjanda þegar viðkomandi kom til landsins. Fylgdarlaust barn á flótta er fylgdarlaust barn á flótta þó að það sé orðið tveimur vikum eldra. Þannig er það bara. Ég hvet allan þingheim til að horfa til þess. 18 ára barn og tveggja vikna er áfram einstaklingur í afar viðkvæmri stöðu þegar henda á viðkomandi á götuna einhvers staðar úti í Evrópu.

Þessar breytingar sem hér eru lagðar til af hálfu meiri hlutans eru því marki brenndar að þeim er ekki ætlað að breyta neinu efnislega í málinu. Þeim er einungis ætlað að bjarga andliti þeirra þingmanna Vinstri grænna og Framsóknar sem hafa talað fyrir mannúðlegri stefnu í málefnum flóttafólks en gera það svo ekki í verki. Það sem hefur gerst hér er að löggjafarvaldið hefur tapað fyrir framkvæmdarvaldinu, eða við skulum segja: tapað fyrir lífslokameðferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Fyrir allsherjar- og menntamálanefnd kom fjöldi umsagnaraðila og voru nánast allar umsagnir, utan þeirra sem koma frá stjórnvöldum sjálfum, svo neikvæðar að okkur brá og í sumum þeirra er jafnvel að finna tillögur að því hvernig megi gera frumvarpið ögn skárra. Í stað þess að nefndin hlusti og fari eftir þeim tillögum sem lagðar eru til, t.d. af Rauða krossinum, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fjölda öðrum umsagnaraðilum sem vilja bara gera gagn, þá eru lagðar hér fram merkingarlausar tillögur sem tala má í kringum og láta líta út fyrir að skipti einhverju máli. Við getum talað um breytingar á heilbrigðisþjónustu, sem hv. þm. Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hélt að væri stórkostleg breyting á þessu frumvarpi en er það auðvitað ekki. Það var talað um að bráðaþjónustan myndi aldrei falla niður, það er nauðsynleg þjónusta sem fellur niður, enda er það svo matskennt. Bráðaþjónusta er þegar þú kemur inn í sjúkrabíl.

Herra forseti. Það virðist sem meiri hlutinn hér sé staddur í einhverju leikriti, nokkuð fyrirsjáanlegu þó, þar sem reynt var að láta líta út fyrir að væri skrifað af einhverjum öðrum en raunin er. Þannig reyndu fulltrúar Vinstri grænna að lita 2. umr. um þetta mikilvæga mál fegurri litum en raunin er með því að krefjast þess að málið kæmi til umræðu milli 2. og 3. umr. og þá yrðu gerðar breytingar á málinu. Tilkynnti forsætisráðherra jafnvel í fjölmiðlum að svo yrði. Þetta er blekking, virðulegur forseti, enda var það svo að á sama tíma og gestir mættu fyrir nefndina var meiri hluti nefndarinnar búinn að láta skrifa upp nýtt nefndarálit með breytingartillögum sem engu skipta, eins og ég hef farið yfir. Þau nenntu ekki einu sinni að hlusta á gestina, enda hefði það ekkert að segja fyrir innihald nefndarálits meiri hlutans. Svona vinna stjórnarliðar, því miður; þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Þetta eru leiktjöld án lita, leikrit án innihalds og leikarar sem bíða bara eftir aðstoð hvíslara á sviðsvæng þegar þau muna ekki lengur hvaða innihaldslausu samtöl þau eiga að viðhafa hér í þingsal.