153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og biðst velvirðingar á að hafa sleppt því að nefna Sjálfstæðisflokkinn af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur kannski ekki verið eða skreyta sig með mannúð í sinni stefnu að undanförnu og alls ekki hæstv. dómsmálaráðherra. Það var nú kannski þess vegna sem ég undanskildi Sjálfstæðisflokkinn frá þessum blekkingaleik sem hér er að eiga sér stað. Vissulega skipta orð máli og vissulega skiptir máli hvað stendur í greinargerð, en lagatextinn skiptir enn meira máli. Þegar verið er að tala um að fella ekki niður bráðaheilbrigðisþjónustu þá er það ekki að það sé ekki verið að fella niður nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það er rangt. Þegar hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson kemur hérna og segir að það falli engin þjónusta niður á meðan í lagatextanum stendur að það falli niður þjónusta, hvaða skilaboð erum við þá að senda út? Hvort tveggja eru orð. Hér stóð hv. þm. Birgir Þórarinsson (Forseti hringir.) og sagði að öll þjónustan myndi falla niður og þetta væru skilaboðin sem meiri hlutinn vildi senda alþjóðasamfélaginu. (Forseti hringir.) Þetta eru allt lögskýringargögn (Forseti hringir.) en það eru lögin sem gilda auðvitað ef uppi er vafi.