153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það var þannig að það voru haldnir tveir fundir. Áður en seinni fundurinn var haldinn, þar sem komu gestir frá Rauða krossinum til þess einmitt að tala um fólk í umborinni dvöl, eins og það er kallað, það fólk sem er ekki hægt að senda í burtu, og hins vegar fulltrúar frá frjálsri grasrótarhreyfingu, var meiri hlutinn búinn að skrifa sitt nefndarálit og það lá fyrir að málið yrði tekið út. Það skipti engu máli hvað kom fram í máli Rauða krossins varðandi þennan hóp fólks eða hvað kom fram í máli þessarar grasrótarhreyfingar. Það hafði engin áhrif því að meiri hlutinn var búinn að taka ákvörðun um hvað þau ætluðu að gera. Það sem kannski svíður varðandi nefndarálit meiri hlutans er einmitt umfjöllun (Forseti hringir.) þar sem talað er um að tekið sé undir ýmiss konar ábendingar fagaðila víðs vegar að (Forseti hringir.) án þess að gert sé neitt með það. Tekið undir en ábendingum ekki fylgt.