153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Þetta er hárrétt ályktun. Það er nefnilega þannig að það hvílir engin skylda á ríkinu, sem er þarna meint móttökuríki, að taka á móti viðkomandi. Ísland er ekki með neina samninga við viðkomandi. Það er munurinn á þessu og Dyflinnarreglugerðinni að þar eru aðildarríki sem eru búin að koma sér saman um ákveðið leikskipulag: Ef einstaklingur kemur til þessa ríkis og finnst þar, þ.e. fingraför hans eða umsókn, þá má senda einstaklingurinn sem sótti um þar til baka til þess ríkis. Þetta eru aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar.

Hér er verið að búa til séríslenska útgáfu af einhverri alheims Dyflinnarreglugerð sem engin ríki eru aðilar að, nema Ísland sem bjó þetta til í sínu dómsmálaráðuneyti, og við höldum að það verði eitthvert ríki úti í heimi, segjum bara Kanada, Bandaríkin eða Mexíkó, sem muni bara taka við einhverjum. (Forseti hringir.) — Það er bara: Heyrðu, hér er einhver sem kannski á bróður í Mexíkó, við ætlum að senda þennan til baka til ykkar, þennan frá Venesúela af því að hann á bróður í Mexíkó. Þó að viðkomandi hafi mögulega aldrei verið þar. Það er ekkert skilyrði um það. (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að framkvæma þetta?