dómstólar.
Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Nánar tiltekið er sú breyting lögð til að dómurum við Landsrétt verði fjölgað varanlega um einn og þeir verði því 16 í stað 15 nú.
Landsréttur tók til starfa hinn 1. janúar 2018 og hefur lögákveðinn fjöldi dómara við réttinn frá upphafi verið 15. Nokkur röskun hefur orðið á starfi Landsréttar frá stofnun hans og hefur dómstóllinn stóran hluta þess tíma verið undirmannaður. Má ástæður þess m.a. rekja til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars 2019, mál Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi og síðar dómi yfirdeildar mannréttindadómstólsins í sama máli. Í kjölfar dómsins frá 2019 létu fjórir dómarar Landsréttar af þátttöku í meðferð mála fyrir réttinum. Þá hafði heimsfaraldur kórónuveiru umtalsverð áhrif á störf Landsréttar líkt og á störf annarra opinberra stofnana og einkaaðila.
Í desember 2022 barst dómsmálaráðuneytinu erindi frá dómstólasýslunni, ásamt ítarlegu minnisblaði Landsréttar frá nóvember síðastliðnum, þar sem dómstólasýslan lýsir þeirri afstöðu sinni að brýn þörf sé á að fjölga dómurum við Landsrétt um a.m.k. einn svo unnt verði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn. Nánar kom þar fram að fyrir liggi að frá árinu 2019 og fram til september 2022 hafi um sex ársverk dómara við Landsrétt farið forgörðum. Þessa stöðu megi að nokkru rekja til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu og heimsfaraldurs kórónuveiru en ekki að öllu leyti. Þannig hafi álag við réttinn vaxið töluvert undanfarin ár og í því sambandi verði að horfa til þess að í nýlegri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu sé gerð ríkari krafa um skýrslutökur fyrir Landsrétti, og spilun á upptökum af skýrslutökum úr héraði, en gert hafi verið ráð fyrir við undirbúning stofnunar réttarins. Málsmeðferð Landsréttar hafi tekið mið af þessari réttarþróun og af greiningu Landsréttar sjálfs megi ráða að sá tími sem dómarar verji í dómsal við meðferð sakamála hafi af þessum sökum aukist umtalsvert. Þá bendir dómstólasýslan á að af frumvarpi því sem varð að gildandi dómstólalögum megi ráða að við ákvörðun um fjölda dómara við réttinn hafi verið tekið mið af lögbundnum rétti dómara til námsleyfa. Reyndin sé að vegna námsleyfa geti aðeins starfað fjórar þriggja manna deildir við Landsrétt. Ef dómarar við réttinn væru 16 væri hægt að fjölga deildum um eina.
Ég tel rétt að leggja framangreindar upplýsingar og greiningu til grundvallar og að af þeim verði ekki annað ráðið en nauðsynlegt sé að fjölga dómurum Landsréttar um einn og að verði svo ekki gert, sé raunveruleg hætta á því að málsmeðferðartími við Landsrétt lengist frá því sem nú er.
Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.