153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki laust við að það læðist hrollur niður hrygginn þegar hæstv. dómsmálaráðherra kemur hingað upp til að segja okkur að við séum rétt að byrja í leiðangri Sjálfstæðisflokksins, að vega að fólki í neyð. Ég vil koma hingað upp til að gera grein fyrir því hvers vegna þingflokkur Samfylkingarinnar mun greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hluta þrátt fyrir að breytingartillögurnar hafi enga raunverulega þýðingu. Það er einfaldlega ekki hægt að greiða atkvæði gegn ákvæði sem áréttar þegar settar reglur um rétt fólks í viðkvæmri stöðu. Við greiðum ekki atkvæði gegn áréttingu um að taka eigi tillit til hagsmuna barna þrátt fyrir að slíkt ákvæði sé nú þegar að finna í útlendingalögum og auðvitað lögum um börn. En eftir sem áður mun þingflokkur Samfylkingarinnar að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu hryllilega frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra í umboði Vinstri grænna og í umboði Framsóknarflokksins sem meiri hlutinn ætlar að styðja hér í dag. Það er ótrúlegt að allir þingmenn þessara þriggja flokka ætli að styðja þetta (Forseti hringir.) þrátt fyrir umsagnir fagaðila sem hafa eindregið mælt gegn því að þetta verði gert því þetta mun bitna harkalega á fólki í neyð.