153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er ekki um raunverulega breytingu að ræða því að það er ekki bara þannig að þetta hafi verið framkvæmt nú þegar, að meta hagsmuni barna, heldur er þetta lögbundið í lögum um útlendinga. Þar segir, með leyfi forseta, í 37. gr. að við mat „í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, skal það sem er barninu fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skal Útlendingastofnun líta til möguleika barns á …“ — svo kemur upptalning á atriðum. — „Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skal Útlendingastofnun taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt grein þessari.“

Þannig að ég átta mig ekki alveg á af hverju verið er að setja þetta aftur í sömu lög, við erum auðvitað líka með barnalög og þar er öllum stjórnvöldum á Íslandi gert skylt að framkvæma hagsmunamat við ákvörðun um málefni barna. Ef meiri hlutanum líður eitthvað betur að setja þetta aftur og aftur í útlendingalögin þá er það auðvitað sársaukalaust af okkar hálfu og þess vegna styður þingflokkur Samfylkingarinnar þessa tillögu. En þetta er ítrekun á þegar gildandi lagaákvæði.