153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er svo innilega opinberandi um viðhorf stjórnarliða til útlendinga í leit að vernd að meiri hlutinn telji sig þurfa að setja í lagatexta að heilbrigðisstarfsfólk sem tekur á móti slösuðu eða fársjúku fólki megi ekki henda því út á götu fyrir það eitt að vera ekki lengur með umsókn í meðferð stjórnvalda. Slík framkvæmd, að neita fólki um bráðaheilbrigðisþjónustu er beinlínis refsiverð, með lögum, í hegningarlögum. Að halda að þetta sé einhver breyting á útlendingalögunum þegar enginn heilbrigðisstarfsmaður, eins og kom fram í umsögnum, hefði látið detta sér til hugar að neita fólki um bráða heilbrigðisþjónustu er hræsni á slíku stigi [Frammíköll í þingsal.] að mig skortir orð. Þetta breytir því hins vegar ekki að þessu sama fólki sem á að henda út á götu og svipta allri þjónustu verður áfram neitað um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þetta veit hv. þingmaður sem kom hér æpandi rétt áðan [Frammíköll í þingsal.] og þakkaði Vinstri grænum fyrir að skylda ekki heilbrigðisstarfsfólk til að brjóta hegningarlög, siðareglur og læknalög. (Gripið fram í: Vandræðalegt.) Nei, þetta er bara staðreynd.

(Forseti (BÁ): Hv. þingmenn eru beðnir um að halda ekki ræður utan ræðustólsins. )