153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fiskeldi í Seyðisfirði.

[15:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um að fá að hefja sjókvíaeldi í Seyðisfirði þrátt fyrir að því er virðist augljóst plássleysi í firðinum. Til að af fiskeldi megi verða þarf að hreinsa út viðurkennt grænt svæði í Skálanesbót, samkvæmt upplýsingum fiskeldisins sjálfs, en einnig verður farið inn á helgunarsvæði Farice-strengsins sem varðar þjóðaröryggi. Eldið kemst því ekki fyrir í firðinum nema með því að sveigja fjarskiptalög vegna Farice, siglingalög, þar sem Seyðisfjörður nýtur siglingaverndar, vitalög, þar sem fiskeldið mun trufla lýsingu, og ofanflóðalög, þar sem mannvirki fiskeldisins verða á yfirlýstu flóðasvæði, sem á nú reyndar að breyta fyrir fiskeldið samkvæmt nýjustu fréttum — fyrir utan að ætla má að framkvæmdin gangi yfir náttúru og samfélag.

Eins og kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar hefur Seyðisfjörður ótvírætt skapað sér einstaka sérstöðu er varðar menningu og ferðaþjónustu og er hvort tveggja nú í hættu. Segir að framkvæmdin sé talin geta haft talsverð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu, sem er einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs á svæðinu, og að áhrif á samfélag og efnahag séu óvissu háð en geti orðið talsverð og verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu.

Með því að samþykkja strandskipulagið hefur hæstv. innviðaráðherra með öðrum orðum sett samfélagið sjálft í töluverða hættu að beiðni eins fyrirtækis sem vill leggja undir sig fjörðinn undir eina atvinnugrein sem óvíst er hvort eigi nokkra framtíð. Því spyr ég hæstv. innviðaráðherra: Hvernig stóð á því að hann staðfesti strandsvæðisskipulag á Austfjörðum í andstöðu við 75% íbúa Seyðisfjarðar? Hagsmuna hverra er hæstv. ráðherra að gæta í þessu máli sem nú skekur samfélagið fyrir austan?