Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fiskeldi í Seyðisfirði.

[15:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er sorglegt að heyra hversu litla virðingu hæstv. ráðherra hefur gagnvart eindreginni afstöðu 75% íbúa svæðisins. Hæstv. ráðherra vísar í það að hann hafi ekki átt að gera neitt annað en bara samþykkja þetta. Þetta segi ekkert til um það hvort verkefnið verði að veruleika, þetta sé bara plan viðkomandi samfélags um hvað verði að veruleika. En 75% samfélagsins eru á móti því að þetta verði að veruleika.

Mér finnst pínulítið skrýtið að heyra að fyrst afstaða hæstv. ráðherra gagnvart íbúalýðræðinu sé svona veikt þá skoði hann ekkert þjóðaröryggi þegar annars vegar liggur fyrir álit forstjóra Farice-sæstrengsins, sem segir ekki hægt að gefa neinn afslátt af þeirri kvöð sem fylgir umferð um strenginn, það liggur alveg fyrir, strengs sem tengir Ísland við (Forseti hringir.) umheiminn, og hins vegar neikvætt álit Landhelgisgæslunnar, hvort tveggja út frá þjóðaröryggi. (Forseti hringir.)

Ef samfélagið skiptir engu máli og íbúarnir skipta engu máli þá veltir maður fyrir sér: Þjóðaröryggi, skiptir það heldur engu máli?