Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

tillaga til þingsályktunar um vistmorð.

192. mál
[17:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir brýningu hv. þingmanns og ég nefni það, úr því að hæstv. utanríkisráðherra er hér í salnum, að ég tel að málið sé í mjög góðum höndum þar. Ég vil kannski aðeins dýpka það sem ég nefndi áðan, að þetta er mál sem skiptir máli að við vinnum þvert á landamæri og einmitt þess vegna höfum við tekið umhverfismálin upp á vettvangi Evrópuráðsins sem í raun og veru hluta af mannréttindum. Þess vegna finnst mér það vera ákveðin tíðindi að stjórnvöld í Úkraínu nefni vistmorð sem einn af sínum tíu punktum í sínum friðartillögum. Þar er fjallað um að það þurfi að koma í veg fyrir vistmorð og tryggja vernd umhverfisins sem hluta af varanlegum og réttlátum friði. Mér finnst þetta að einhverju leyti vera tímanna tákn. Mér finnst líka, og ég vonast til þess að það verði raunin af því að við erum að fara að ræða málefni Úkraínu hér á þessum leiðtogafundi, þar á meðal ákveðna þætti í þessum friðartillögum, að þetta eigi heima nákvæmlega á slíkum fundi sem er ætlað að fjalla um okkar sameiginlegu gildi á sviði mannréttinda, lýðræðis og alþjóðlegra laga og reglna, og að við tökum nákvæmlega þetta mál þar til umræðu. Ég vonast til þess að við fáum jákvæðar fréttir. En ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra heldur áfram vinnu við þetta mál í sínu ráðuneyti í samvinnu við aðra ráðherra eins og ég fór yfir hér áðan.