Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:36]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sína skýrslu og það er ánægjulegt að ræða alþjóðamál jafn ítarlega og sjá má á dagskrá þingsins í dag. Eftir þessa umræðu koma aðrar skýrslur sem tengjast alþjóðamálum og alþjóðasamskiptum þingsins.

Skýrsla hæstv. ráðherra gefur mjög gott yfirlit yfir utanríkismálin og starfsemi utanríkisþjónustunnar einnig. Skýrslan hefur að geyma mikið af upplýsingum er varða hagsmuni okkar í nútíð og framtíð. Í dag er óhætt að fullyrða að allt það sem að alþjóðasamfélaginu snýr sé í reynd samofið okkar lífi frá hinu smæsta til hins stærsta.

Undanfarin ár hafa Norðurlandasamvinnan, Evrópumál og samstarfið á vettvangi EES fangað athygli alla. Ég leyfi mér að fullyrða að öryggis- og varnarmál hafi fallið í skuggann á undanförnum áratugum, m.a. með falli Berlínarmúrsins og járntjaldsins en einnig með brotthvarfi varnarliðsins frá Miðnesheiði árið 2006. Innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar í fyrra hefur breytt öllu. Það geisar nú stríð í Evrópu. Hryllingurinn heldur áfram og sér ekki fyrir endann á þeim hildarleik. Vil ég taka undir með hæstv. ráðherra, að þeir stríðsglæpir sem framdir hafa verið af Rússum séu í raun algjört siðrof þar sem afmennskun ein geti útskýrt verknaðinn. Við Íslendingar höfum verið minnt á mikilvægi þess að starfa innan alþjóðasamtaka, m.a. varðandi öryggismálin. Innganga okkar í Atlantshafsbandalagið var gæfuspor og veitir okkur aukið öryggi á óvissutímum og sama á við um varnarsamninginn við Bandaríkin.

Öryggis- og varnarmál eru nú miðpunktur allrar umræðu í alþjóðasamstarfi sem við Íslendingar tökum fús þátt í. Við höfum nýlega uppfært þjóðaröryggisstefnu okkar á vettvangi Alþingis í takt við síbreytilegt öryggisumhverfi. Sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins eru leiðarstef í þeirri stefnu. Ég vil aftur þakka utanríkismálanefnd og þjóðaröryggisráði og þeim aðilum sem þar sitja, fyrir góða samvinnu.

Eins tekur þjóðaröryggisstefnan á netógnum og upplýsingaóreiðu, svo eitthvað sé nefnt. Undirritaður stóð fyrir sérstakri umræðu hér á Alþingi um fjölþáttaógnir og netöryggismál í nóvember síðastliðnum og var sú umræða bæði upplýsandi og þörf. Ísland er efst á lista yfir netnotkun í heiminum en þegar kemur að netöryggi þurfum við að gera mun betur. Við höfum nefnilega til þess góð verkfæri. Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem læsi er almennt, menntunarstig hátt og fáar hraðahindranir til staðar til aukinnar og markvissar fræðslu. Það er mikilvægt að auka árvekni og þekkingu okkar á hættum sem stafa af fölskum upplýsingum og tryggja örugga netumgengni. Við þurfum að vera á varðbergi og vera skrefi á undan þróuninni sé þess nokkur kostur. Sem fyrr leggur Ísland sitt af mörkun mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins með þátttöku í loftrýmiseftirliti, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins og bandalagsríkja og hefur samstarf varðandi netöryggi einnig markvisst verið eflt á þeim vettvangi.

Virðulegi forseti. Í maí næstkomandi mun Ísland verða vettvangur leiðtogafundar Evrópuráðsins, þess fjórða sem haldinn er í sögu ráðsins. Fundurinn er m.a. til kominn vegna gjörbreytts landslags í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í lok síðasta árs og má segja að sá viðburður sem fram undan er sé einn stærsti og verði jafnvel sá sögulegasti í sögu þjóðarinnar. Kastljós alþjóðasamfélagsins mun verða á landinu og það er mín von að niðurstaða fundarins styrki enn frekar sameiginleg gildi og samstöðu meðal ríkja álfunnar.

Það er mín skoðun, frú forseti, að fundurinn sýni dugnað okkar, vilja, getu og kjark til þátttöku í alþjóðasamstarfi þar sem rödd Íslands skiptir máli. Aðild og þátttaka Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur einnig verið grundvallarþáttur í utanríkisstefnu okkar allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna og Íslendingar hafa tekið virkan þátt í störfum með fastanefndinni í New York í broddi fylkingar. Það er okkar markmið að reka áfram öfluga utanríkisþjónustu eins og hæstv. ráðherra hefur svo sannarlega farið yfir í þeirri skýrslu sem við ræðum hér. En ég held að það sé vert að skoða hvernig megi efla utanríkisþjónustuna enn frekar. Það skiptir mjög miklu máli fyrir Ísland og fyrir komandi kynslóðir að við gerum okkur enn frekar gildandi. Við höfum margt til brunns að bera. Það höfum við sýnt í gegnum tíðina og við gefum hvergi eftir. Við stöndum með okkar gildum og okkar áherslum. Til þess er horft víða í heiminum og við eigum að vera stolt af því hvernig okkur hefur gengið og vera óhikandi í því að reyna að efla enn frekar samstarf á alþjóðavettvangi.

Allsherjarinnrás Rússa hefur sett öryggisumhverfi Evrópu og heimsins á haus og ófyrirséð hvert sú þróun mun leiða. Yfirgangur Rússa minnir mann kannski að einhverju leyti á sögur sem maður las af Sovétríkjunum sálugu á sínum tíma en er jafnvel í raun enn verri og miskunnarlausari, þar sem ráðist hefur verið á borgaraleg skotmörk og innviði sem lamað hefur samfélög jafnvel fjarri víglínunni. Það er gott að vita að við Íslendingar höfum brugðist drengilega og vel við því stríði sem geisar í Úkraínu, ekki einvörðungu af hálfu yfirvalda heldur hefur hin íslenska þjóð komið til stuðnings og virðingarvert að sjá fyrirtæki sem hafa verið aflögufær styðja við uppbyggingu innviða sem eyðilagst hafa í Úkraínu vegna stríðsreksturs.

Ég tek undir með ráðherra að innrásin er áminning um að alþjóðalög, mannréttindi og lýðræðisleg gildi séu nefnilega ekki sjálfgefin. Mín kynslóð þekkir ekki aðra nálgun og raunar held ég að flestir hafi um langt skeið búist við því að lýðræðisumbætur myndu leiða lýðræðis í löndum þar sem uppreisn fólks gegn einræði, spillingu og ofríki væri jafnvel handan við hornið. Nú sjáum við aftur á móti verulegar blikur á lofti, bæði austan hafs og vestan, í átt til popúlisma og ógnar við lýðræðisleg gildi sem við höfum lengst af í okkar sögu Íslands, leyfi ég mér að segja, alltaf haft í hávegum. Þetta er verulegt áhyggjuefni og kallar á það að við séum sífellt að meta stöðuna. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvaða lærdóm við eigum að draga af stöðunni og hvernig við getum brugðist við af festu og ábyrgð. Það er mín skoðun að við megum ekki vanmeta hættuna á því hversu mikils virði það er að vera sjálfstæð og hversu hverfult það getur verið. Við höfum nefnilega aðeins verið sjálfstæð þjóð meðal þjóða í einn mannsaldur eða svo. Það er ekki langur tími. Hér býr þjóðin við eina mestu hagsæld og lífsgæði sem þekkjast og sú staða er svo sannarlega ekki sjálfgefin.

Því miður erum við gjörn á að halda að allir hugsi eins og við og allir séu tilbúnir til að vinna saman í átt að betri lífsgæðum, frelsi og auknum mannréttindum og enn betra samfélagi fyrir komandi kynslóðir. En það er erfitt að setja sig inn í hugsunarhátt þeirra sem viðurkenna t.d. ekki Úkraínu sem þjóð, viðurkenna ekki að Úkraína hafi lögmætan rétt til að ráða sinni framtíð sjálf. Hugsunarháttur sem þessi er okkur framandi sem verjum alþjóðakerfið og eigum okkar framtíð undir því að það kerfi virki sem skyldi. Ég minntist hér á varnarsamninginn við Bandaríkin og hversu mikilvægur hann er okkur, eins vera okkar í Atlantshafsbandalaginu en ekki síður mikil og góð samvinna okkar við nágrannaþjóðir. Á nýlegum fundi sem sá sem hér stendur sótti um utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins nýverið, kom fram að líklega hefðu Evrópuríkin ekki haft nægt bolmagn til að styrkja Úkraínu til varna án Bandaríkjanna. Á fundinum var þessi staðreynd mikið rædd. Þar veltu menn upp þeirri stöðu og hvað væri til bóta fyrir Evrópuríkin til að tryggja sínar varnir enn betur. Í umræðunni hafa slíkt mat, slíkar skoðanir og slík umræða sannarlega átt sér stað á Íslandi einnig. Í ljósi aðstæðna held ég að það sé mjög eðlilegt og hollt fyrir okkur sem þjóð.

Við sjáum alls kyns væringar í alþjóðamálum. Til að mynda er nú forseti Kína í heimsókn í Kreml, en framganga Kínverja gagnvart stríðinu í Úkraínu hefur verið í besta máta mjög sérstök þar sem þeir til að mynda fordæma ekki stríðsrekstur Rússa og má eiginlega segja að Kínverjar gefi ódæðinu pólitískt skjól. Hlutirnir gerast hratt og það er á okkar ábyrgð að vera við öllu búin. Í því sambandi er vert að nefna sérstaklega norðurslóðamálin, öryggismálasamvinnu norðurslóðaríkja og er áhugavert að heyra skoðun utanríkisráðherra á því hvernig hún sjái þá samvinnu þróast í ljósi þess að Rússar sitja þar ekki lengur við borðið, og hefur sá vettvangur verið friðsamlegur og fyrst og fremst bundinn við jákvæða samvinnu á svæðinu.

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa verið að sýna það í verki að við erum þjóð meðal þjóða. Við eigum að leggja enn meiri áherslu á þjóðaröryggi og enn ríkari áherslu á samstarf um öryggis- og varnarmál. Nýlega kom út bókin Íslenskur her þar sem Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, fjallar um nauðsyn þess að hér sé innlendur varnarher í samvinnu við aðrar þjóðir. Bókin er áhugaverð lesning. Þó að ég sé ekki sannfærður um að innlendur her sé rétta leiðin þá held ég að það sé mikilvægt að við eflum áfram samvinnu okkar og getu á sviði varnarmála. Má þar t.d. nefna stuðning, svo sem leit og björgun, að við eflum til muna sérfræðiþekkingu á varnarmálum og leitum leiða til að tryggja öryggi okkar.

Ég ætla að fá að ljúka máli mínu og vil nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki utanríkisþjónustunnar fyrir mjög góða vinnu, ekki bara upp á síðkastið og ekki síst í heimsfaraldrinum, heldur fyrir að vera verðugir útverðir okkar um heiminn. Það er virðingarvert og mikilvægt starf fer þar fram. Því vil ég ljúka ræðu minni með þakklætistóni til þeirra.