Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:53]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Ég held að ég fari rétt með en við höfum nú átt samtal einmitt um þróunarsamvinnuna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar; bæði út frá bakgrunni hv. þingmanns en líka varðandi áhuga minn á málaflokknum. Ég held að það sé tvennt í þessu. Það þarf svo sem enginn að efast um vilja Framsóknar til að standa þétt við bakið á þróunarsamvinnu. Ég held þetta snúist annars vegar um það að við séum með skýr markmið, sem við höfum verið að setja okkur með skýrri stefnu, og að við reynum að horfa lengra fram í tímann og þá sjáum við einhvers konar feril þess að framlögin hækki yfir tíma. Eins og við þekkjum hér í umræðu um fjármál ríkissjóðs er allur gangur á því hvernig það hefur gengið. Gagnrýnisraddir hafa m.a. verið um það að ákveðnar krónutölur séu uppi í ákveðnum tilvikum og ákveðnar prósentur í öðrum. En ég held að það sé alveg óhætt að segja að mín skoðun er sú að við eigum að gera betur og setja okkur markmið, en með því markmiði þá myndi ég halda að það væri skynsamlegt að reyna að hækka það jafnt og þétt en einnig horfa í hvernig við verjum því fjármagni og hvar okkar ávöxtun liggur út frá stefnunni og ekki síst út frá þeim grundvallarþáttum sem snúa að breytingum í þróunarsamvinnu og kannski áherslubreytingum innan málaflokksins. Ég vil þá kannski sérstaklega benda þar á þá þætti sem snúa að heilbrigðis- og lýðheilsumálum þar sem gríðarlega mikið hefur áunnist fyrir samt sem áður ótrúlega lítið fjármagn ef horft er til áhrifanna, ef þeim er beint í réttan farveg.