Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:57]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna og það er rétt sem hann bendir á, að þetta er vaxandi ógn. Ef ég fer stuttlega yfir það sem snýr að fjölþáttaógnum þá hefur upplýsingaóreiða og misbeiting upplýsinga raunverulega fylgt manninum alla tíð. Nú er bara aðgengi að tækjum og tólum bæði ódýrara og aðgengilegra sem gerir það að verkum að fleiri geta farið að beita slíkum tólum í óæskilegum tilgangi og við því þarf að bregðast.

Netöryggi er kannski það sem hæst ber varðandi fjölþáttaógnirnar. Þó svo að við séum búin að bæta verulega í þar, m.a. með sérstakri CERT-IS viðbragðssveit, þá held ég að þetta sé málefni sem verði áfram á dagskránni og ég held að lykillinn þar sé aukin samvinna ríkis og vinnumarkaðar, fyrirtækja, tæknifyrirtækja og almennings til að koma í veg fyrir að þessir glæpamenn nái árangri. Þar er nefnilega maðurinn sjálfur, við sjálf, því miður veikasti hlekkurinn. En við því er hægt að bregðast með upplýsingum, fræðslu og við þekkjum ógnirnar og við þurfum svolítið þjóðarátak í þessu. Bara í gær, sem dæmi, þá fæ ég allt í einu í skilaboð í símann minn um að einhver sé að reyna að opna hjá mér heimabankann með rafrænum skilríkjum. Sem betur fer eru þau nú nokkuð trygg, að ég held. Ég svaraði því auðvitað ekki en þarna var bara einhver auðveld leið til að reyna að hafa áhrif á það, ef ég myndi ýta á vitlausan takka væri einhver úti í heimi kominn inn á heimabankann minn. Það er alltaf verið að láta reyna á okkur sem persónur (Forseti hringir.) og nýta sér hegðunarmynstur okkar og við verðum að vera á varðbergi og ég held að við getum gert enn betur í þeim málaflokki.