Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði, vegna orða hv. þingmanns um þróunarsamvinnu, að taka undir með hv. þingmanni varðandi héraðssamvinnu, sem við höfum unnið mjög ötullega að, til að mynda í Malaví, og með mjög góðum árangri, og nefna í því samhengi að ég trúi því, og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér í því, að það séu gríðarleg tækifæri fyrir lítið land eins og Ísland að stórauka — með því að tvinna saman þróunarsamvinnu og nýsköpun og leyfa okkur að vera nýskapandi í hugsun þegar kemur að þróunarsamvinnu þá getum við náð svo miklu meiru fram en krónurnar sem við setjum í málaflokkinn ættu annars almennt að gefa til kynna. Við nýtum auðvitað styrkleika Íslands í þróunarsamvinnu og erum með nokkuð skýran fókus og við reynum að nýta framlög sem best til að hámarka árangur. Og þrátt fyrir að við séum sammála um að við eigum að setja markið hærra, eins og við höfum verið að gera undanfarin ár, að hækka þegar kemur að prósentutölu af vergum þjóðartekjum, þá eru framlögin ein og sér ekki mælikvarði á árangur. Án þess að nota það sem afsökun fyrir því að við þurfum ekki að gera betur þá vil ég taka undir með hv. þingmanni og nefna það sérstaklega að við getum svo sannarlega, trúi ég, gert betur með því að samtvinna enn betur nýsköpun og þróunarsamvinnu.

Varðandi alþjóðlegan björgunarskóla, sem hv. þingmaður nefndi, þá fagna ég einfaldlega því máli og tækifærinu til að fara í gegnum það og skoða hvort það er áhersla sem við ættum að taka upp hér. Þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC-nefndin, hefur hvatt GRÓ til að leggja í auknum mæli áherslu á þjálfun á vettvangi. Í samhengi við það þá getur vel verið að okkar fókus eigi jafnvel að vera þar. Það gæti verið góð leið til að finna nýjan stað til að gera meira gagn.