Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál fyrir árið 2022 og ég vil, líkt og margir aðrir þingmenn, þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna sem er gríðarlega yfirgripsmikil og kemur inn á fjölmarga þætti. Ég ætla að koma inn á einhverja þeirra hér í minni ræðu. Innrásarstríð Rússa í Úkraínu tekur eðlilega mikið pláss í þessari umræðu, skárra væri það nú. Um er að ræða brot á alþjóðalögum og mannlega harmleikinn sjáum við í fréttum. Ég ætla að koma nánar að stríðinu síðar í ræðu minni en langar fyrst að tala um nokkur önnur atriði sem koma fram í skýrslunni og sem hæstv. ráðherra hefur einnig talað um.

Fyrst vil ég sérstaklega fjalla um mannréttindi kvenna. Mér finnst mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra kom inn á þau í ræðu sinni og hvernig hún og hæstv. forsætisráðherra hafa haldið þeim málum á lofti hér innan lands og á alþjóðavettvangi. Það er mikilvæg og grjóthörð pólitík sem snertir helming mannkyns og í rauninni allt mannkyn. Áhrif faraldursins á verri stöðu réttinda kvenna sem og áhrif loftslagsbreytinga hafa verið nefnd. Ég vil nota tækifærið hér til að draga það fram að fátt eða ekkert hefur meiri áhrif á stöðu og velferð kvenna en stríð, til að mynda með hækkandi matarverði, lélegri innviðum og minnkandi jöfnuði. Þetta er atriði sem við eigum að tala um og eigum að setja í samhengi við það sem er að gerast á alþjóðavettvangi hverju sinni.

Mér finnst líka mikilvægt að tala um þróunarsamvinnu. Framlög Íslands hafa sem betur fer farið hækkandi. Við erum komin upp í 0,35% af þjóðartekjum, vorum fyrir nokkrum árum ekki í nema 0,22%, sem var auðvitað hneisa, en við þurfum að ná þeim upp. Markmiðið á að sjálfsögðu að vera 0,7% af vergum þjóðartekjum eins og lagt er til af OECD.

Við getum hins vegar verið stolt af því sem við erum að gera. Við getum verið stolt af tvíhliða samvinnunni við Úganda og Malaví og mér líst vel á að Síerra Leóne bætist við þó svo að ég hafi því miður ekki haft tækifæri til að fylgjast með umræðunni í þróunarsamvinnunefnd síðustu misserin. Áhersla okkar á héraðsnálgun sem og stöðu og réttindi kvenna og barna skiptir þar gríðarlega miklu máli.

Ég fagna því að Ísland ætli aftur að bjóða sig fram í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025–2027 og ég tel að við höfum sýnt það að þar getum við haft áhrif til góðs og það er svo sannarlega ekki vanþörf á öðru en að þar sé talað fyrir réttindum allra; réttindum kvenna, réttindum hinsegin fólks, réttindum ýmiss konar minnihlutahópa, mannréttindum almennt.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins mun fara fram á Íslandi í vor. Þar eru mikilvæg mál á dagskrá þar sem leiðtogar ráðsins koma saman til að efla samstöðu um grundvallargildi ráðsins, mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Þetta held ég að skipti máli en vil bæta því við að þetta verður auðvitað líka að ræða í samhengi við jöfnuð á heimsvísu og réttlát umskipti sem og friðsamlega veröld. Ég á raunar ekki von á öðru en að þetta verði það sem verður rætt en vil ítreka það hér að mér finnst mikilvægt að við setjum þessi grundvallargildi í þetta stóra alþjóðlega samhengi.

En aftur að stríði. Það er ekkert jafn átakanlegt, jafn sorglegt og ömurlegt og að sjá afleiðingar stríðs af mannavöldum. Þetta höfum við séð í fréttum af stríðinu í Úkraínu þó svo að líklega séum við aðeins að sjá lítið brot af þeim hörmungum sem venjulegt fólk, fólk eins og við, glímir við þegar það reynir að lifa af í hversdeginum sínum. Hörmungar stríða koma nefnilega aldrei almennilega fram fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Þetta erum við auðvitað að sjá núna með önnur stríð. Það eru 20 ár liðin frá innrásinni í Írak sem við berum svo sannarlega ábyrgð á sem partur hinna viljugu þjóða þegar Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson settu okkur á lista þeirra sem studdu við þá innrás. Hörmungarnar fyrir almenning og uppgangur öfgaafla í kjölfar innrásarinnar hafa enn ekki verið gerðar upp eða ábyrgð Vesturlanda í þeim efnum. Umræðan er þó sem betur fer hafin og það var gríðarlega afhjúpandi að heyra viðtal við Magnús Þorkel Bernharðsson, einn okkar helsta sérfræðing í Miðausturlöndum, í kvöldfréttum RÚV í gær um málatilbúnaðinn þegar stjórnvöld í ýmsum ríkjum og almenningur voru sannfærð um mikilvægi innrásarinnar í Írak á fölskum og upplognum forsendum. Síðan er það viðskilnaður Bandaríkjamanna í Afganistan og þær hörmungar sem almenningur þar í landi býr við en þó auðvitað sér í lagi konur. Eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á í sinni ræðu eru aðstæður kvenna í Afganistan skelfilegar og ég held raunar hreinlega ofar ímyndunarafli okkar. Ég nefni svo ekki nema í framhjáhlaupi önnur stríðshrjáð lönd í samtímanum eins og Palestínu, Sýrland og Jemen og stríðin eru auðvitað miklu fleiri, því miður.

Við í Vinstri grænum höfum frá því að stríðið í Úkraínu hófst með innrás Rússa talað fyrir skýrum stuðningi við Úkraínu en við höfum líka haldið á lofti þeirri sýn að aldrei megi útiloka friðsamlegar lausnir. Það verður að vinna að því að friður komist á vegna þess að það er eina leiðin til að tryggja velferð almennings. En friður verður auðvitað að byggjast á réttlátum grunni. Friður á ekki að nást fram með kúgun og ofbeldi en það þarf að hafa fyrir honum og það þarf að draga aðila, sérstaklega Rússa, að borðinu til að ræða um frið. Það hefur ekki verið mikið rými fyrir friðarboðskap að undanförnu. Það er meira talað um það hvernig þjóðir þurfi að efla hernaðargetu sína, en ég held að það sé sjaldan mikilvægara að tala um frið en þegar stríð geisa því að stríð sýna svo skýrt að friður er forsenda allra framfara. Það sem lætur undan þegar stríð geisa, alveg óháð því hver innrásaraðilinn er, eru mannréttindi, lýðræði, jafnrétti og velsæld. Þrátt fyrir stríð í Evrópu eða annars staðar í heiminum munum við í Vinstri grænum ekki falla frá sannfæringu okkar um frið, mikilvægi þess að talað sé um frið og fyrir friðsamlegum lausnum. Þetta snýst líka um forgangsröðun á fjármagni, líka á alþjóðavísu, hvort fjármagn fari í vopnaframleiðslu eða í að styrkja samfélög svo að þar geti ríkt jöfnuður og fólk hafi tækifæri til góðs lífs. Þetta snýst líka um að standa vörð um alþjóðasáttmála, t.d. mikilvæga afvopnunarsáttmála, ekki síst þá sem varða gjöreyðingarvopn. Það er þyngra en tárum taki að við skulum ekki tala meira um það að mikilvægir afvopnunarsáttmálar sem snúa að fækkun kjarnorkuvopna séu látnir renna úr gildi og séu ekki framlengdir, ég tala nú ekki um að við getum ekki sameinast um það að banna hreinlega kjarnorkuvopn og að við tölum ekki meira um það að kjarnorkuveldi heimsins, sem eru of mörg, séu núna, þegar við ættum að vera að takast á við loftslagsbreytingar og þá erfiðleika sem samfélög glíma við í kjölfar heimsfaraldurs, að eyða peningum í að þróa ný kjarnorkuvopn, öflugri og tæknivæddari.

Það á að halda áfram áherslunni um norðurslóðir sem lágspennusvæði. Ég og við fleiri úr Vinstri grænum viljum tala fyrir því að svæðið eigi að vera kjarnorkuvopnalaust. Það er partur af því að stuðla að friðvænlegum heimi þar sem ríki eiga að leggja sig fram um að ná friðsamlegum lausnum. Það er ekki alltaf einfalt. Það krefst langs tíma. En líkt og ég hef farið hér í gegnum í ræðu minni um hörmungar stríða og þau áhrif sem þau hafa á samfélag þá er það eina leiðin fram á við. Ég vil brýna hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla áfram í þeim efnum því að líkt og kom fram í upphafi ræðu minnar þá erum við að gera svo mikilvæga hluti þegar kemur að því að gera hér betri heim fyrir okkur öll, m.a. í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og í gegnum þróunarsamvinnuna. Það er þar sem við eigum að halda áfram því að við erum þjóð á meðal þjóða. Við höfum rödd og við eigum að nota hana til góðs.