Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í seinna andsvari mínu að snúa mér aðeins að hækkun framlaga til þróunarsamvinnu en mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrra svarið. Ég er alveg sammála því að við þurfum að finna leiðir til þess að ráðherrar séu ekki að taka ákvarðanir af þessu tagi án þess að spyrja okkur hin, svo að við tölum nú ekki um þjóðina. En ég heyrði í ræðu hv. þingmanns að hún styður það að hækka framlög til þróunarsamvinnu og það er ánægjulegt. Ég held að ég sé alla vega kominn með fjóra flokka sem segjast vilja hækka framlagið, kannski náum við öllum átta einhvern tímann fyrir kvöldmat. En mig langaði sérstaklega að tengja þessa hækkun við annað sem hv. þingmaður fjallaði um sem eru loftslagsmálin. Við vitum t.d. að á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP-ráðstefnunni, í Egyptalandi fyrir nokkrum mánuðum náðist samkomulag um það sem á íslensku hefur verið kallað tap- og tjónsjóður, eða „loss and damage“ á ensku, með leyfi forseta, sem á að hjálpa þróunarlöndum við að greiða kostnaðinn af þeim afleiðingum loftslagsáhrifanna sem þegar eru komnar og eru að aukast og munu hafa áhrif á lönd þeirra. Þarna erum við að tala um háar upphæðir sem Ísland mun þurfa að leggja af mörkum inn í þennan sjóð og ef við ætlum að fara að taka það af þróunarstarfinu sem við erum með í dag þá verður ansi lítið eftir. Þurfum við ekki einmitt að taka þetta (Forseti hringir.) og loftslagsmálin inn í þessa jöfnu um að hækka framlag okkar til þróunarsamvinnu?