Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[14:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir góða framsögu og þetta mikilvæga mál. Ég kem hér og kveð mér hljóðs til að undirstrika, eins og hæstv. ráðherra fór yfir í sinni framsögu, áhersluna á mikilvægi samþættingar, sem er einn meginliðurinn í þessum aðgerðum, og samvinnunnar um þetta mál. Ég held að það fari líka vel á því að koma með málið hér í formi þingsályktunartillögu þannig að Alþingi raunverulega samþykki að lokum aðgerðaáætlunina í tillögugrein og fjalli um hana í hv.velferðarnefnd. Ég held að þetta sé löngu tímabært — ég held ekkert um það, ég er algjörlega sannfærður um það og það hefði mátt vera miklu fyrr. Það hefur komið fram í mörgum ræðum hv. þingmanna hér að við erum oft að kljást við einhverja veggi og línur og múra á milli félagslegrar þjónustu, heilbrigðisþjónustu, ríkis og sveitarfélaga og félagasamtaka sem vilja láta gott af sér leiða. Svo eru fjölmörg verkefni bara komin langt á undan okkur og nánast tilbúin sem þróunarverkefni inn í þessa samþættu áætlun, sem er vel. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór yfir eitt þeirra hér áðan, sem heitir Hátindur 60+, sem er verkefni sem talar raunverulega inn í þessa aðgerðaáætlun en henni er skipt upp í nokkra liði.

Umræðan hér áðan var reyndar orðin svolítið ljóðræn, sem er vel. Þetta er þannig mál. Ég fékk nú oft þau ráð frá mér eldra fólki þegar ég var yngri að það væri ekki ráð nema í tíma væri tekið: Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Við erum alla vega að taka þannig utan um þetta mál núna að við reynum að þétta þjónustukeðjuna og tökum utan um þá sem hafa þegar áttað sig á stöðunni og eru farnir að vinna að þessum málum. Þannig að það er vel.

Það sem er að gerast og er jákvætt, og við erum lánsöm í þeim skilningi, það er að meðalaldur þjóðarinnar er að hækka. Við lifum lengur. Í hinum alþjóðlega samanburði erum við hlutfallslega ung þjóð. Ef við förum eftir aldursviðmiðum laganna, 67 ára og eldri, þá erum við 12,9% í dag á meðan meðaltalið í Evrópusambandinu er 21% og í OECD-ríkjum er það um 17%. Þetta er jákvætt. Lífslíkur við fæðingu eru hér með því hærra sem gerist, á milli 83 og 84 ár. Þannig að þetta er jákvætt en þessu fylgja auðvitað áskoranir og við viljum sinna þessu vel. Við viljum, eins og fram hefur komið hér og kemur fram í þessari aðgerðaáætlun, gera allt sem við getum til að styðja við sjálfstæða búsetu og horfa inn í þá uppbyggingu með markvissari hætti. Það að styðja við sjálfstæða búsetu þýðir líka að félagsþjónustan, heilbrigðisþjónustan, lýðheilsan og virknin vinni allt saman þannig að við styðjum og gerum fólki kleift að búa lengur heima.

Svo getum við nefnt, af því að ég var að nefna Hátindur 60+, Múlabæ sem hélt upp á 40 ára afmæli sitt ekki alls fyrir löngu. Hann fellur bara inn í þetta. Þar kemur fólk í virkni allan daginn; í þjálfun og samtal og spjall. Þetta eru þættir sem ættu ekki að vera trufla okkur, við ættum sem samfélag að geta tekið utan um hluti eins og það að vera að kljást við félagslega einangrun og einmanaleika og hrörnun í of miklum mæli. Við eigum að geta sem þjóð stutt hvert annað í að hafa þetta í lagi.

Svo þekkjum við líka þessa neikvæðu hlið. Við tölum um aldursfordóma. Þeir birtast kannski í því sem við fjöllum líka oft um í þessum ræðustól; í formi biðlista, fráflæðisvanda, skorts á þjónustu. Við erum svona á neikvæðu hliðinni og þá birtast þessir fordómar sem eru að mínu viti alger óþarfi af því að við bætum bara alltaf við einum degi og finnum ekkert fyrir því. Þannig eigum við bara einhvern veginn að hugsa þetta. Ég segi að markmið okkar sem samfélags ætti að vera að gera okkur kleift að eldast með reisn og við góða heilsu og heima.

Ég er sammála því sem hefur komið fram hérna í umræðunum. Mér finnst að heilsuefling í öllu sínu formi eigi bara að vera fyrir allan aldursskalann. Talandi um að bæta við einu ári og finna mikið fyrir því þá á það raunverulega bara að vera sú hugsun sem á að gilda allan aldursskalann. Við eigum ekki að stoppa. Þegar við finnum okkur í einhvers konar virkni, hreyfingu, heilsueflingu, hvort sem það er hreyfing eða næring eða lífsstíll að öðru leyti, þá eigum við að huga að því allan aldursskalann.

Hv. þm. Inga Sæland kom í samtali við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðanna inn á íþróttafélögin og m.a. það starf sem er unnið í Árbænum. Þetta er auðvitað vettvangur þar sem er þekking. Við erum með frístundakort í sveitarfélögunum til stuðnings. Við þurfum að finna þessu farveg. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í heilsueflingu. Þarna er þekkingin, þarna er aðstaðan, þarna er aðbúnaðurinn. Þannig að það fellur alveg inn í þessa aðgerðaáætlun að finna því almennan jafnræðisfarveg að styðja við það starf. Um það gildir að við verðum að huga að því allan aldurskalann. Þar er félagslegi þátturinn ekkert síðri en hann er það alltaf, á hvaða aldri sem við erum.

Þessi aðgerðaáætlun kemur í kjölfarið á aðgerðaáætlun sem kom fyrst hér 2021 um heilsueflingu aldraðra. Þar eru settar fram tillögur að aðgerðum. Þessi vegferð sem birtist í þessari aðgerðaáætlun er mjög skýr í stjórnarsáttmála. Talandi um samþættingu og samvinnu um þetta verkefni þá er það félags- og vinnumarkaðsráðherra sem heldur á keflinu og það var sett í hendur á mjög öflugum verkefnahóp sem ég verð að fá að hrósa hér, hæstv. forseti, fyrir að hafa unnið þetta mjög vel, bæði allan ferilinn og fyrir að hafa kynnt málið vel og haldið kynningarfundi og þing um þetta mál, m.a. komið í þingflokka og kynnt málið. Þannig að það er búið að vinna feykigóða vinnu í undirbúningi á þessu máli.

Aðgerðaáætluninni er skipt upp í fimm þætti. Mér finnst samþættingarþátturinn, sem er a-liðurinn, eins og í framsetningu í tillögugrein, kannski veigamestur. Þetta er í samvinnu okkar og m.a. hæstv. fjármálaráðherra. Samband íslenskra sveitarfélaga er með í þessari vinnu, Landssamband eldri borgara. Það speglar svona hugarfarið á bak við þessa aðgerðaáætlun. Það er í samþættingunni að efla heimaendurhæfingu eldra fólks, þróa dagdvalirnar en þær eru mjög mikilvægar í sveitarfélögunum og endurhæfingin virkilega mikilvæg. Mér finnst góð hugmynd hér inni að þróa stuttinnlagnir. Það er nú kannski í línu við það sem hv. þingmaður Viðar Eggertsson kom inn á áðan, að vegurinn á alltaf að liggja heim. Mér finnst það spegla þá samvinnuhugsun sem er í þessari áætlun. Þannig að þessi aðgerðaáætlun, eins og hún er lögð hér fram, er mjög mikilvæg fyrir okkur í nú- og framtíð, fyrir alla aðstandendur og fyrir okkur sem samfélag. Ég segi bara: Loksins. Og ég veit að Alþingi og hv. velferðarnefnd mun taka vel utan um þetta mál.