Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[15:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hér til þessarar sérstöku umræðu um loftslagsskatta ESB á millilandaflug. Þetta er mál sem kom að einhverju leyti aftan að þeim sem ekki höndluðu með það á upphafsstigum innan stjórnsýslunnar og er þannig vaxið að það verður í öllu tilliti að vera það mál sem mest áhersla er lögð á að ná tökum á og eftir atvikum kveða í kútinn. Við öllum sem hafa kynnt sér málið blasir við að verði regluverkið innleitt eins og það liggur fyrir mun það skaða stórkostlega hagsmuni Íslands. Framboð á flugi mun minnka verulega og það mun hækka í verði. Áhrifin á þá atvinnugrein sem mestum gjaldeyri skilar, ferðaþjónustuna, verða hrikaleg. Útflutningur á ferskum fiski verður í fullkomnu uppnámi, rekstrarskilyrði fyrirtækja versna og þar með hagur landsmanna allra. Ísland sem miðstöð tengiflugs í Atlantshafi verður fyrir bí. Áhrifin á Icelandair og Play verða óbætanleg. Þetta er sú sviðsmynd sem dregst upp séu skoðuð undirliggjandi efnisatriði málsins.

Tölur og greiningar sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld benda til þess að málið sé svo alvarlegt að það ætti í rauninni að vera í fullkomnum og algjörum forgangi. Bara það að bera saman ný loftslagsgjöld — og þetta er kynning frá innviðaráðuneytinu sem ég hef fyrir framan mig — þar sem EES-tengiflugvellir eru bornir saman við tengiflugvelli utan EES á sömu endapunktum, þá erum við að horfa t.d. á það að United Airlines er með kostnað upp á 8 evrur á flugsæti á meðan kostnaður Icelandair, með sama upphafs- og lokapunkt, gæti verið um 93 evrur. Tólffaldur munur. Þetta verður svo afgerandi hrun í samkeppnisstöðu, gangi þetta fram með þeim hætti sem kerfið uppáleggur, að það verður að spyrna við fótum. Ráðherrarnir hafa nú farið hver á fætur öðrum og reynt að tala máli stjórnvalda, sá fimmti er að fara út til Brussel þessa vikuna að ræða við kontóristana og reyna að stilla þetta af gagnvart þeim. En tölurnar eru þannig að ég hef miklar áhyggjur af því ef ætlunin er að klára þetta mál með einum eða öðrum hætti í flýti á lokamánuði þessa þings. Ég hef lúmskan grun um að það verði frá miðjum maí, þegar Evrópuráðsþingið verður um garð gengið í Reykjavík, til þingloka sem á með einum eða öðrum hætti að reyna að klára þetta mál. Þá er ég hræddur um að stjórnvöld verði eftirgefanleg og telji mikinn sigur mögulega nást með einhverri smávægilegri aðlögun sem engu máli skiptir til lengri tíma.

Sú mynd sem dregin hefur verið upp fyrir okkur hér heima er að eftir að stjórnvöld virðast hafa áttað sig á alvarleika málsins, við skulum segja að það hafi verið einhverju áður en forsætisráðherra skrifaði bænarbréf til forseta framkvæmdastjórnar ESB síðasta sumar, er okkur sagt að haldnir hafi verið 100 fundir og rúmlega það, eitthvað á annað hundrað fundir, og eins og ég sagði áðan bætist enn í ráðherrastrolluna sem fer og reynir að koma vitinu fyrir kontóristana í Brussel, sá fimmti í þessari viku. En þessir hundrað fundir virðast engu hafa skilað hvað þau atriði sem hér er fjallað um varðar. Í svarbréfi Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, frá því í ágúst 2020 þar sem hún bregst við bréfi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, dagsettu 15. júní sama ár og birt var nýlega, kemur fram að lítill skilningur sé á sjónarmiðum Íslands hvað losunardeiluna varðar. Í öllu falli skín í gegn lítill vilji til að koma til móts við sjónarmið Íslands í þessu risastóra máli.

Ég spyr því hæstv. ráðherra. Hvað hefur gerst síðan bréfið barst frá forseta framkvæmdastjórnarinnar? Hefur einhver árangur náðst hvað það varðar að verja stöðu Íslands sem miðstöðvar tengiflugs á Atlantshafinu? Hver stýrir þeim viðræðum og hvernig er haldið utan um samskipti við ESB vegna málsins, í ljósi þess að fimm ráðherrar virðast nú á einhverjum tímapunkti hafa stigið inn í málið?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru þau tvö efnisatriði sem innviðaráðherra hefur lýst yfir að ESB hafi breytt til að koma til móts við sjónarmið Íslands sem snúa að millilandaflugi til og frá Íslandi og tengjast „Fit for 55“ aðgerðaáætlun Evrópusambandsins og voru þær breytingar gerðar sérstaklega til að koma til móts við Ísland?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru ætluð áhrif á millilandaflug til og frá Íslandi út frá þeim greiningum sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld og kynntar hafa verið fyrir fulltrúum Evrópusambandsins? Verður regluverkið innleitt óbreytt? Hver eru t.d. ætluð áhrif á heildarframboð á millilandaflugi samkvæmt dekkstu mynd verði regluverkið innleitt án nokkurra frekari undanþága?

Og að lokum, í fjórða lagi, vil ég spyrja: Telur hæstv. ráðherra málið tilefni til að endurskoða þá ákvörðun að tengjast Evrópusambandinu með jafn beinum hætti og hingað til hefur verið gert hvað loftslagsmarkmið og aðgerðir varðar? (Forseti hringir.) Og hvað á ráðherrann við þegar hann segist vera, með leyfi forseta, „á því að við eigum ekki að biðja um að vera fullkomlega stikkfrí“?