Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu í dag, enda um mikilvægt hagsmunamál okkar að ræða innan EES-samstarfsins. Eins og fram kom í umræðum um skýrslu mína um framkvæmd EES-samningsins fyrr á árinu hafa stjórnvöld staðið fyrir samstilltu átaki við að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri og jafnframt að vinna að lausnum í málinu, einkum hvað varðar hugsanleg áhrif á tengiflug um Keflavíkurflugvöll. Af því að hv. þingmaður sagði að þetta ætti að vera eitt okkar helsta forgangsmál, þá er þetta líklega víðtækasta átak um nokkurt mál frá því að við urðum aðilar að EES-samningnum og forgangurinn eftir því.

Hv. þingmaður nefndi það hér og hefur nefnt það áður, að ég og við höfum átt fjölda funda og samtala við ráðherra aðildarríkjanna og framkvæmdastjóra um málið. Hv. þingmaður nefndi hér með örlitlum tón hversu margir ráðherrar hefðu farið, eins og það skipti ekki máli eða myndi ekki skila árangri. En ég væri ekki að forgangsraða tíma með öðrum ráðherrum eða að fara á fund með yfirmönnum hjá Evrópusambandinu til að ræða málið nema af því að við ætlum að ná árangri. Þessir fundir eru því ekki til þess að telja árangurinn í fjölda funda heldur til að ná árangri í niðurstöðu fyrir Ísland.

Ég tel að það gæti ákveðins misskilnings í lestri hv. þingmanns á innihaldi bréfs forseta framkvæmdastjórnar ESB, vegna þess að í bréfinu er einmitt viðurkennd landfræðileg sérstaða Íslands og talað um að taka eigi tillit til mikilsverðra hagsmuna ríkja. Síðan bréfið barst í ágúst sl. hefur fjöldi funda og samtala átt sér stað við þau sem eru í forsvari innan Evrópusambandsins og aðildarríkja þess og þar hefur viðurkenning á okkar sérstöðu komi skýrt fram og við höfum skapað tækifæri til að kynna málstað okkar og forsendur betur.

Af því að hv. þingmaður velti því upp hvort hingað inn í þingið kæmi frumvarp seint í vor sem ætti einhvern veginn að þvinga þetta mál í gegn, þá er það alls ekki ætlunin og það verður ekki þannig, vegna þess að málið hefur ekki enn þá tekið gildi inni í Evrópusambandinu. Eftir tekur síðan við ferli þar sem taka þarf málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni og það á margt eftir að gerast þangað til að komið er að því að innleiða málið hér. Við erum að vinna að því að það liggi fyrir hver innleiðingin er, sem liggur ekki fyrir núna, vegna þess að ég hef sagt mjög skýrt — það liggur algerlega fyrir bæði hér innan lands og erlendis — og það er algerlega kristalskýr afstaða mín og íslenskra stjórnvalda, að gerðin verður ekki tekin upp í EES-samninginn án þess að tekið sé tillit til íslenskra aðstæðna. Það hefur kallað á marga fundi, mikla vinnu og greiningar, að koma fólki í skilning um þessar sérstöku íslensku aðstæður og ég tel að öll þau sem þurfa að skilja þær sérstöku aðstæður geri það núna.

Það tók líka tíma að ná sameiginlegum skilningi á hvaða afleiðingar óbreytt innleiðing hefði á íslenska hagsmuni. Það er núna komið á allt annan stað og fólk sér svart á hvítu hvaða áhrif þetta hefði að óbreyttu fyrir Ísland. Þetta er því í mínum huga aðalatriðið í málinu og þess vegna höfum við verið að taka málið föstum tökum, til að koma í veg fyrir að neikvæð áhrif myndu koma hér fram, enda myndu þau að óbreyttu koma hratt fram. Útreikningar okkar benda til þess að farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll gæti dregist saman um 8% árið 2028 og áfangastaðir um 12%. Þess vegna er unnið að því að jafna stöðu okkar tengiflugvallar svo þessi áhrif komi einfaldlega ekki fram.

Því ítreka ég hér að það er skýr afstaða mín og íslenskra stjórnvalda, að gerðin verður einfaldlega ekki tekin upp án þess að tekið sé tillit til þessara sérstöku íslensku aðstæðna. Þess vegna vil ég halda mig þar en ekki fara að fabúlera um það hér hvað myndi gerast ef málið yrði tekið óbreytt upp og hvaða áhrif yrðu þá, vegna þess að þau áhrif munu ekki koma fram því að málið verður ekki tekið óbreytt upp.

En Ísland skorast hins vegar ekki undan því að taka þátt í og styðja við heildarmarkmið þessarar nýju löggjafar til þess að ná fram loftslagsmarkmiðum. Við höfum reyndar sjálf sett okkur metnaðarfyllri markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og við verðum þá sömuleiðis óháð jarðefnaeldsneyti. Það er hins vegar risastórt verk og liggur ekki fyrir með hvaða hætti við náum því. Hins vegar liggur fyrir að til þess að svo megi verða þá þarf m.a. að framleiða meiri raforku til að framleiða sjálfbærara eldsneyti sem hægt er að blanda við annað. Bæði þarf tæknin að vera til staðar og nægilegt framboð á markaði og þar mun Ísland ekki eitt og sér tryggja allt það magn heldur þarf fleira að koma til. Við þurfum fyrst og fremst að brúa bilið með því að jafna samkeppnisstöðu okkar tengiflugvallar og flugfélaga þar til það er raunhæfur möguleiki að nota sjálfbært flugvélaeldsneyti eða aðrar tækniframfarir leiða til þess að losun frá flugi minnki. (Forseti hringir.) Í því liggja hins vegar líka efnahagsleg tækifæri fyrir Ísland og þess vegna finnst mér skipta máli að talað sé af skynsemi, vinnan sé unnin og ásættanlegum árangri náð fyrir Ísland.