Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Raforkuframleiðsla, sem losar gróðurhúsalofttegundir, hefur frá upptöku ETS, Evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir árið 2005, þurft að kaupa losunarkvóta. Kostnaðinum við það er svo velt yfir á raforkunotendur sem nýta slíka orkuframleiðslu og hafa þeir því greitt fyrir uppbyggingu grænna raforkuvinnslu í álfunni. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa: Um 35% samdráttur náðist í losun frá þeim geirum sem falla undir ETS á milli áranna 2005 og 2021. Flugið var svo fellt undir ETS árið 2012. Síðan þá hafa flugfélög orðið að kaupa sér losunarheimildir eins og önnur mengandi starfsemi í Evrópu. Það hefur Icelandair líka gert og keypt heimildir fyrir háar upphæðir.

En nú vill ESB að gera betur í loftslagsmálum og draga úr magni svokallaða frírra losunarheimilda. Aðildarríkin hafa undirbúið málið í mörg ár og loks náð samkomulagi um hvernig útfærslu skuli háttað. Útfærslan getur sannarlega skaðað samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga. Það er afar slæmt að Ísland hafi ekki verið haft með í ráðum þegar slík ákvörðun var tekin og undirbúin. Sváfu íslensk stjórnvöld á verðinum? Á bréfi Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, má skilja að þó nokkrar villur sé að finna í greiningu ríkisstjórnar Íslands. Í bréfinu stendur, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu: Nokkrar forsendur sem gerðar eru í þessari greiningu endurspegla ekki þá evrópsku löggjöf sem er til staðar í dag.

Forseti. Það er algjörlega óásættanlegt ef stjórnvöld hafa ekki varið nægilega brýna hagsmuni okkar í þessum efnum. Við þurfum að fá að vita allt um það hvað gert hefur verið og hvaða möguleikar standa okkur enn til boða.