Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:07]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna hérna í dag, en sú sem hér stendur hefur verulegar áhyggjur af því hversu óhóflegar fyrirhugaðar breytingar eru á beitingu ETS-kerfisins fyrir flug um verð á Íslandi. Hér er um að ræða verulega hagsmuni fyrir okkur sem land og þjóð. Ísland er eðli málsins samkvæmt mjög háð flugi eða sem nemur um 14% af landsframleiðslu Íslands og endurskoðun ETS mun leiða til alvarlegrar röskunar á jöfnun samkeppnisskilyrða flugfélaganna sem nota Ísland sem miðstöð á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Tilgangurinn með þessum breytingum er jákvæður en það er að flýta fyrir grænum umskiptum í geiranum og ýta neytendum yfir í aðra ferðamáta fyrir styttri leiðir. Það eru góð og gegn markmið, en við hér á landi búum ekki við kerfi líkt og aðrar Evrópuþjóðir þar sem þær hafa lestir eða aðra sambærilega ferðamáta og erum því háð flugferðum til og frá Evrópu, þar sem það er í rauninni eina raunhæfa leiðin til að komast til og frá landinu. Við búum því við annan raunveruleika en flest önnur lönd í Evrópu.

Sérstaða Íslands í þessu máli er því augljós, bæði út frá takmörkunum á samgöngum og vegalengdum. Til samanburðar er meðalvegalengdin frá Evrópu til Íslands 2.200 km samanborið við 850–1.000 km fyrir allt innan EES. Í ljósi þessa getum við ekki sætt okkur við að fella þessa reglugerð inn í EES-samninginn án aðlögunar vegna landfræðilegrar stöðu okkar. Íslensk stjórnvöld eru að ræða við framkvæmdastjórnina um næstu skref í þessu máli og hefur hæstv. ráðherra sótt fjölda funda vegna þessa og staðið sig vel í því að koma okkar sjónarmiðum og sérstöðu á framfæri. Því var ánægjulegt að heyra að viðurkenningin fyrir sérstöðu okkar er komin og vil ég hvetja ráðherra áfram til góðra verka því að ég veit að hæstv. ráðherra er meðvitaður um þá stöðu sem við erum í.