Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

lyfjakostnaður og tímabil lyfjakaupa.

674. mál
[17:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir þessa góðu fyrirspurn. Ég tek jafnframt undir athugasemdir hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar sem kom hér með það innlegg að samkvæmt könnun væri 7% fólks að neita sér um lyf. Það er 7% of mikið. Ég tek undir að það þurfi að leita allra leiða til að hafa þetta sem einfaldast. Auðvitað þekkjum við það að þegar við setjum á kerfi þá þarf að halda utan um það. Að sama skapi var það sem sló mig að þetta er ekkert eina dæmið. Það skortir oft rauntímagögn til að glöggva sig nákvæmlega á aðstæðunum og hvað er við að fást og hvaða fjárhæðir við höfum til ráðstöfunar til að ná utan um þetta. Mér finnst þessi fyrirspurn og þessi umræða hér draga það bara skýrt fram að við getum alltaf gert betur. Þetta er auðvitað nauðsynlegur partur af heilbrigðisþjónustu. Ég hef velt því upp hvort við getum ekki sameinað bara greiðsluþátttökuna í einu kerfi og reynt að einfalda það. Og einmitt þetta á milli Tryggingastofnunar þar sem við erum svona að reyna það. Þetta er dæmi um það þegar við setjum plástur á kerfin okkar til að styðja og hjálpa — meiningin er góð. Mér finnst þessi umræða draga það fram að við þurfum að fara í saumana á kerfinu og hvernig við getum haldið utan um það.

Hluti af þessari umræðu er auðvitað lyfjaverð vegna þess að það er það sem við erum alltaf að kljást við. Almennt erum við með hærra verð á lyfjum en gengur og gerist og það er stöðug barátta. Við höfum tekið umræðu hér um að taka upp til einföldunar miðlægt lyfjakort til að halda utan um skráningar. Þannig að ég bara þakka fyrir þessa góðu fyrirspurn og get tekið hana áfram.