Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, um tilkynningar um heimilisofbeldi. Hér er um að ræða frumvarp sem er ætlað að skýra betur þær heimildir sem heilbrigðisstarfsmenn hafa til að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu þegar sjúklingur sem er þolandi slíks ofbeldis leitar á heilbrigðisstofnun. Tilkynningin yrði gerð að beiðni sjúklings. Í slíkum tilvikum er heimilt að miðla til lögreglu almennum persónuupplýsingum sjúklings, upplýsingum um áverka sjúklings ásamt öðrum upplýsingum er varða ofbeldið og aðstæður sjúklingsins og eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að lögregla geti gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning.

Hæstv. forseti. Heimilisofbeldi er umfangsmikið samfélagslegt mein sem hefur í auknum mæli verið álitið úrlausnarefni samfélagsins alls. Þannig hafa auknar kröfur verið settar á stjórnvöld að bregðast við og grípa til nauðsynlegra og markvissra aðgerða til að vinna gegn ofbeldi og vernda þau sem fyrir því verða.

Árið 2022 voru tæplega 1.100 heimilisofbeldismál tilkynnt til lögreglu. Um 63% málanna voru ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka og um fjórðungur milli foreldra og barna. Tæplega 80% árásaraðila voru karlar á meðan 67% þolenda voru konur. Þessi birtingarmynd er m.a. ein ástæða þess að heimilisofbeldi er skilgreint sem kynbundið ofbeldi. Af þeim konum sem lagðar voru inn á Landspítalann í kjölfar líkamlegra áverka af völdum heimilisofbeldis á tímabilinu 2005–2019 var í 12% tilvika skráð tenging við aðkomu lögreglu samkvæmt skrám spítalans.

Þolendur heimilisofbeldis eru útsettir fyrir bæði stigmögnun í alvarleika og ítrekuðu ofbeldi. Af þeim 1.636 konum sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala á 15 ára tímabili voru 38% þeirra að koma ítrekað á spítalann í kjölfar heimilisofbeldis. Þess vegna er það mikilvægt og mikilvægt út frá þessum óhugnanlegu tölum að leitast við að rjúfa ofbeldishringinn og styðja þolendur í að komast út úr aðstæðunum.

Heilbrigðisstarfsmenn eru oft þeir fyrstu og jafnvel einu fagaðilarnir sem fá vitneskju um ofbeldið. Þegar einstaklingur leitar á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis er oftar en ekki tilefni til að óska eftir aðkomu lögreglu að málinu. Þrátt fyrir það virðist lögregla ekki vera kölluð til nægilega oft þegar slík mál koma inn á borð heilbrigðisstarfsmanns. Mögulegt er að ástæðan fyrir því sé að núgildandi ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, sé ekki nægilega afgerandi og skýrt að mati heilbrigðisstarfsmanna. Þannig er heilbrigðisstarfsfólk sett í erfiða stöðu um huglægt mat á því hvenær rétt sé að rjúfa þagnarskyldu. Þannig að þetta er matskennt ákvæði. Með ákvæði eins og lagt er til er talið að hægt sé að bæta úr þessu.

Þá er samhliða unnið að verklagi í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis og gert er ráð fyrir því að það verði tekið upp haustið 2023, á þessu ári. Um er að ræða verklag sem verður innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum hér á landi. Verklagið er lýsing á því hver gerir hvað og hvernig þegar tekið er á móti sjúklingi sem er þolandi heimilisofbeldis. Verklagið miðar að því að hjúkrunarfræðingur og læknir verði ekki einu heilbrigðisstarfsmennirnir sem hitti þolanda heldur verði tenging við félagsráðgjafa og tilvísun send á áfallateymi þar sem starfa fagaðilar sem veita sálfræðimeðferð. Þjónustan virkjast þannig þegar þolendur leita til heilbrigðiskerfisins vegna heimilisofbeldis. Verklagið á að vera til þess fallið að öll heimilisofbeldismál verði skráð og unnin með sambærilegum hætti og þolendur fái þannig sambærilega þjónustu óháð búsetu og efnahag.

Hæstv. forseti. Við gerð frumvarpsins voru áform um lagasetningu og frummat á áhrifum lagasetningar birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 21. desember 2022 og veittur frestur til að skila inn umsögn til og með 10. janúar 2023. Í samráðinu bárust sex umsagnir og í greinargerð með frumvarpinu er fjallað allítarlega um þær athugasemdir sem þar koma fram og voru mjög gagnlegar. Ég ætla nú ekki að fara yfir þær sérstaklega en bendi á að þær eru hér í greinargerð með frumvarpinu. Þá voru drög að frumvarpinu birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 27. janúar sl. og var veittur frestur til að skila inn umsögnum til 10. febrúar en þá birtust til viðbótar þrjár umsagnir.

Mat á áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð hefur farið fram og það er ekki gert ráð fyrir því við lögfestingu á frumvarpinu að það hafi áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs. Þá var einnig unnið jafnréttismat sem og mat á áhrifum á persónuvernd.

Ég vil jafnframt koma inn á það hér, hæstv. forseti, að þær breytingar sem eru lagðar til hér — og ég vil ítreka að verklagið sem er í vinnslu samhliða þessu frumvarpi og þessari breytingu er ekkert síður mikilvægt — þær eru til viðbótar við vinnu sem hefur farið fram á vegum stjórnvalda til að vinna gegn og berjast gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn konum, og er í fullu samræmi við stjórnarsáttmála um markvissa vinnu þess efnis sem byggir jafnframt á alþjóðlegum samningum Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu á þessu sviði. Istanbúl-samningurinn hefur verið kallaður samningur Evrópuráðsins og hann tekur mið af mannréttindasáttmála Evrópu um rétt allra til lífs. Þá hefur eftirlitsnefnd Evrópuráðsins sem fylgir eftir þessum samningi, GREVIO, komið með ýmsar ábendingar um úrbætur í þessa veru. Er þetta frumvarp og þetta verklag sem hér er kynnt í fullu samræmi við þær ábendingar sem þaðan hafa komið.

Ég held að ég hafi gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Þetta er ekki stór breyting í ákvæði, í orðum eða línum en veigamikil breyting og mikilvæg er hún. Þannig að ég hef gert svona í meginatriðum grein fyrir þessu hér, virðulegi forseti, og leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.