Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa spurningu. Þetta kjarnar raunverulega mjög mikla umræðu um það hvernig skyldi orða ákvæðið og hvernig orðalag sé best til þess fallið að takast á við þessar viðkvæmu og erfiðu aðstæður sem eru uppi. Það má spyrja sig að því af hverju það er hreinlega ekki skylda að tilkynna heimilisofbeldi og af hverju þetta hugtak, beiðni, er notað hér. Við spurðum okkar helsta fagfólk, bæði inni á stofnun og þá sem hafa verið að vinna í starfshópi og hafa fjallað um þetta fram og til baka, hvort það ætti að nota orðið heimild eða skylda eða beiðni eða samráð og hvernig það birtist í þessum samskiptum en það er mjög mikilvægt að virða þessar viðkvæmu aðstæður. En ef við spyrjum okkur að því af hverju þessi skylda er ekki þá er ágætlega frá því greint í greinargerð með frumvarpinu hvernig staðan er á öðrum Norðurlöndum. Þar er mjög sambærileg leið farin. Skyldan er vandkvæðum bundin á margan hátt, til að mynda er talið að það gæti frekar aukið á fælingarmátt og þannig fælt þolendur heimilisofbeldis frá því að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Hugtakið beiðni var notað, til að mynda í staðinn fyrir samþykki eða samráð, en það er orðanotkun sem kemur frá persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins og er að fyrirmynd laga nr. 86/2021, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar er notast við hugtakið beiðni en ekki t.d. samþykki eða samráð og það var valið í þessu tilviki.