Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Þetta eru akkúrat og einmitt þær vangaveltur sem er nauðsynlegt að fara í gegnum og maður las í gegnum þær athugasemdir sem komu fram í samráði, bæði um áformin og svo um frumvarpsdrögin. Þetta er mjög mikilvægt af því að þetta eru snúin mál, þau eru viðkvæm, þau eru erfið og í þeim tilvikum þegar þau tengjast börnum eru þau sérstaklega viðkvæm. Þetta snertir persónuverndarsjónarmið og friðhelgi einkalífs og það þarf að kanna allt þetta til hlítar. Auðvitað erum við að leggja þetta fram til þess einmitt að rjúfa þessa vondu stöðu af því að þetta er, eins og ég kom inn á í framsögu, oft ítrekað og verður vítahringur. Ef maður skoðar tölurnar þá þurfum við að gera eitthvað mjög róttækt í þessu og horfast í augu við þá staðreynd að það er kannski í of mörgum tilvikum sem mál eru ekki tilkynnt miðað við þá tölfræði sem er til. Við þurfum að bæta úr því og við þurfum líka að bæta úr verklaginu. Það er óhjákvæmilegt að þetta gerist í samráði við sjúklinginn en við erum auðvitað að leggja þetta fram til að takast á við þessa stöðu og styðja sjúklinginn fyrst og fremst. Þess vegna sagði ég það í framsögunni að ég held að verklagið sé mikilvægt samhliða þessari breytingu.