Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Já, ég ætla að fullyrða að við sjáum það fyrir okkur með því að bæði gera þessar breytingar hér en ekki síst með þessu verklagi sem ég er að koma hér inn á. Birtingarmyndin í heilbrigðiskerfinu er þannig að það verður fólk af öllum kynjum fyrir heimilisofbeldi. Þetta er raunverulega jafn fjölbreytt og við erum einhvern veginn, bæði samsetning heimila og kynja og uppruna, og kemur í alls konar myndum. Úr þeim rannsóknum sem liggja fyrir, eins og hv. þingmaður kom inn á, er það mjög sláandi að það komi kona annan hvern dag á bráðamóttökuna í Fossvogi vegna líkamlegra áverka í kjölfar heimilisofbeldis. Það er bara einhvern veginn eitthvað sem mann hefði ekki órað fyrir. En þetta eru bara konurnar sem segja frá því að maki þeirra hafi beitt þær ofbeldi og þetta eru bara konurnar sem koma á Landspítalann, af því að þar höfum við skráningarnar, í Fossvogi, en aðrar heilbrigðisstofnanir hafa ekki eins reglubundnar skráningar. Þetta þurfum við allt að ná betur utan um.

Ég hef talað hér um verklagið. Annað sem ég vil nefna varðandi tölurnar er að konur á barneignaraldri eru sá aldurshópur sem er líklegri en konur í öðrum aldurshópum. Það er alls konar tölfræði til í þessu sem er mjög sláandi. Af því að hv. þingmaður kom inn á börnin vil ég nefna hér að hlutverk félagsráðgjafans er mikilvægt þar. Það er til að mynda gert ráð fyrir því að hann sjái m.a. um að senda tilkynningu til barnaverndar í samræmi við 17. gr. barnaverndarlaga og tengi þolanda við lögreglu ef þolandi vill aðkomu lögreglu og verði í sambandi við velferðarþjónustu í nærumhverfi þolandans. Þannig að það er fjölmargt í þessu verklagi sem er hugsað til þess að ná betur utan um þetta verkefni.