Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem kemur í kjölfar þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní fyrir réttu ári síðan. Þar fól Alþingi hæstv. heilbrigðisráðherra að leggja fram slíka aðgerðaáætlun til fimm ára í senn og endurskoða árlega.

Þessi aðgerðaáætlun, sem er í formi þingsályktunartillögu fyrir árin 2023–2027, samanstendur af 27 aðgerðum. Þær gætu nú vafalítið verið fleiri og jafnvel færri, það er gjarnan þannig þegar umfangið er mikið, en þá er mjög mikilvægt að búið sé að taka vel utan um slíka áætlun og halda fast í stefnumótunina þannig að hægt sé að fylgja þessu vel eftir. Framsetning aðgerðaáætlunarinnar tekur mið af þeim fjórum áhersluþáttum sem eru settir fram í stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og má raunverulega lesa sig þannig í gegnum tillögugreinina. Stefna í geðheilbrigðismálum vísar því veginn í átt til umbóta, breytinga, þróunar og nýsköpunar og er aðgerðaáætlun nauðsynleg til að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum raungerist. Sérhver áhersluþáttur stefnunnar er í raun meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar. Aðgerðirnar eru svo tengdar hverju meginmarkmiði og samræmast þannig stefnunni.

Það þarf svolítið að leggjast yfir þetta saman til að átta sig á þessum tengingum, sem ég veit að hv. þingmenn munu gera og hv. velferðarnefnd þegar hún tekur málið til sín. Til að þessi áætlun nái fram að ganga er nauðsynlegt að við framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar sem þessi aðgerðaáætlun felur í sér verði farsælt samráð og samstarf á milli heilbrigðisráðuneytis, annarra ráðuneyta, heilbrigðisstofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, jafnt opinberrar sem einkarekinnar, og ekkert síður við góðgerðastofnanir, félagasamtök, sveitarfélög og aðra velferðarþjónustu og notendur. Hér er mikil áhersla lögð á samþættingu við aðgerðir, samvinnu og notendamiðaða nálgun. Það er kannski það sem einkennir þessa áætlun.

Ég myndi vilja segja að miklar framfarir hafi átt sér stað í geðheilbrigðismálum undanfarin ár en við Íslendingar stöndum áfram, líkt og aðrar þjóðir, frammi fyrir fjölmörgum áskorunum sem þarf að takast á við til að ná framförum í þessum málaflokki. Sem dæmi um framfarir í málaflokknum hafa geðheilbrigðisþjónusta og snemmtæk úrræði hjá heilsugæslunni verið efld. Einnig hafa geðheilsuteymi verið sett á fót, sannað tilverurétt sinn og skilað gríðargóðri vinnu. Þau þurfum við að efla enn frekar og er það algjörlega í samræmi við þær áherslur sem við sjáum hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um mikilvægi þess að viðeigandi og tímanleg úrræði standi fólki til boða áður en sjúkdómsástand nær að þróast lengra. Mér finnst líka vera meiri áhersla og nýmæli í þessari áætlun að horfa á forvirka endann, geðræktina o.s.frv. Æskilegt er að halda þessari uppbyggingu áfram til að mæta betur þörfum fólksins í landinu og hlúa heildstætt að þeim sem á hjálp þurfa að halda. Á sama tíma þarf að efla geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum heilbrigðiskerfisins þannig að kerfið geti sem best sinnt bráðum veikindum ásamt langvinnum veikindum og oft flóknum geðrænum áskorunum.

Það er staðreynd að skortur er á hæfu og sérhæfðu fagfólki á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu svo að anna megi eftirspurn eftir þjónustu. Þetta er mikil áskorun og í raun alheimsvandamál. Bara í síðustu viku áttum við í tengslum við heimsókn norrænu ráðherranefndarinnar mjög góðan fund hér um geðheilbrigðismál þar sem var mjög góð þátttaka frá öllum hér og erlendis frá líka. Þar komu mjög skýrt fram þessar áskoranir, þessi vandi sem við erum að kljást við, bæði hér og á öðrum Norðurlöndum. Nýliðun hefur því miður verið takmörkuð í þeim fagstéttum sem helst veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og samkeppni ríkir milli stofnana og starfseininga um þann takmarkaða fjölda sem er að störfum í geðheilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Þá er hlutverk notenda í bata sem jafningja ekki orðið órjúfanlegur hluti af þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu enn sem komið er. Mér fannst það kjarnast mjög á þessari ráðstefnu að inn í þessa þjónustu þurfi að koma í miklu meira mæli notendamiðuð nálgun og jafningjastuðningur. Það eru aðgerðir í þessari áætlun sem styðja þá nálgun.

Þá er mikilvægt að nefna að þótt skipulag um heilbrigðisþjónustu skilgreini fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu þá er þörf á að við áttum okkur á því að sum heilbrigðisþjónusta, eins og geðheilbrigðisþjónusta, á sér stað á öllum stigum. Það getur oft verið erfitt að reyna að skýra og skerpa nákvæmlega hvað fellur undir hvert stig þjónustunnar og þess þá mikilvægara, eins og nálgast er í þessari aðgerðaáætlun, að skýra betur og skilgreina farvegi fyrir algengar áskoranir og útiloka að fólk lendi á milli vita í þjónustunni eða að það myndist grá svæði og það verði ekki samfella í þjónustu. Með hliðsjón af skýrum þjónustufarvegi er þörf á að skilgreina ábyrgð og hlutverkaskiptingu þjónustuaðila starfsfólks geðheilbrigðisþjónustu. Þess vegna er einnig mikilvægt að skilgreina samvinnu og samstarf, bæði innan heilbrigðiskerfisins og við aðra velferðarþjónustu. Markmiðið með slíkri vinnu er að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og á réttum tíma út frá þörfum einstaklinga og aðstandenda þeirra.

Aðgerðaáætluninni er m.a. beint að þessum mikilvægu viðfangsefnum og það er afar brýnt að líta á hana sem heildstæða og samþætta áætlun því að það er víxlverkun á milli aðgerða innan hvers áhersluþáttar og einnig á milli áhersluþáttanna sjálfra. Flestar aðgerðir áætlunarinnar lúta að geðrækt og forvörnum og því að grípa snemma inn í þegar geðrænn vandi skapast. Þessi fyrsti áhersluþáttur er að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði séu grundvallarþjónusta. Þar miða aðgerðirnar að því að efla geðrækt og þjónustu í barneignarferlinu, auka aðgengi foreldra og forráðamanna að ráðgjöf vegna geðheilsu barna sinna og auka aðgengi barna og ungmenna að geðrækt, forvörnum, svokölluðum snemmtækum inngripum og meðferð. Ein aðgerðin leggur áherslu á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að hagnýtum, gagnrýndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu sem auðveldi þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl, bæta og viðhalda geðheilsu og bata. Þá eru þrjár aðgerðir í aðgerðaáætluninni sem miða að því að ljúka innleiðingu grundvallarþátta í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi sem unnið hefur verið eftir síðan 2018. Aðrar aðgerðir lúta að því að tryggja að geðheilbrigðisþjónusta og þróun hennar til framtíðar verði í samræmi við þarfir og væntingar notenda og verði í vaxandi mæli notendamiðuð. Hér er einnig áhersla lögð á valdeflingu og virka þátttöku notenda í eflingu, veitingu og þróun geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu sem og að auka virkni notenda og samfélagsþátttöku. Fjórar aðgerðir miða svo að því að bæta aðgengi að öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu og auka fjölbreytni þeirrar þjónustu.

Í áætluninni eru mikilvægar þróunaraðgerðir þar sem unnið er nánar með flókin úrlausnarefni eins og að hlutverk, verkefni, samfella og samhæfing innan geðheilbrigðisþjónustu, sem og við aðra velferðarþjónustu, verði sett í forgang. Fjölgun fagfólks og bætt mönnun er grundvöllur þess að hægt verði að ráðast í frekari þróun og nauðsynlegar breytingar í geðheilbrigðismálum og nokkrum aðgerðum er beint að þessu mikilvæga viðfangsefni. Þá er ein aðgerð í áætluninni þróuð sérstaklega til að bregðast við niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 um geðheilbrigðismál þar sem bent var á að skráningu og söfnun upplýsinga um geðheilbrigðismál á Íslandi væri ábótavant. Til að hægt verði að fylgjast með gæðum og öryggi geðheilbrigðisþjónustunnar verða gæðavísar og árangursviðmið skilgreind og innleidd í geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

Þá er mikilvægt að taka fram að í aðgerðaáætluninni er umfjöllun mála einskorðuð við grundvallaratriði en ekki fjallað um sértæka þætti. Þannig eru einstakir sjúkdómar ekki tilgreindir heldur rætt um alvarlegan og síður alvarlegan vanda og síðan langvinnan og skammvinnan. Þetta kallast auðvitað á við þessi stef sem við þekkjum úr stefnunni. Hér er heldur ekki fjallað um einstakar stofnanir heldur sjónum beint að tegund þjónustu og þjónustustigum. Á sama hátt er ekki getið um einstakar fagstéttir, enda oft svo að viðfangsefni geðheilbrigðisþjónustu krefjast færni eða þjálfunar sem fleiri en ein fagstétt hefur þekkingu og hæfni til að sinna.

Aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum byggir á yfirgripsmikilli undirbúningsvinnu og gagnagreiningu. Víðtækt samráð hefur átt sér stað í gegnum mótunarferli stefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum. Ég met það svo, virðulegi forseti, að það að fara þessa leið, með stefnu í gegnum þingið, með aðgerðaáætlun í gegnum þingið, sé mjög vænlegt í þessum víðfeðma málaflokki.

Þessi drög að þingsályktun um aðgerðaáætlun voru unnin í samvinnu heilbrigðisráðuneytisins og samráðshóps helstu haghafa í geðheilbrigðismálum á Íslandi og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 15. desember. Var samráðsfrestur veittur til 19. janúar. Þar bárust fjölmargar umsagnir, mjög jákvæðar, þar sem þeim megináherslum og aðgerðum sem fram koma í áætluninni var fagnað. Margir umsagnaraðilar buðu fram krafta sína til samvinnu og samstarfs um aðgerðir, t.d. tengt aðgerðum er miða að því að fækka sjálfsvígum. Í öllum umsögnum kom fram vilji til að halda áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu í landinu og almennt mikill áhugi á að leggja lóð á vogarskálarnar í markvissri innleiðingu áætlunarinnar til að ná því markmiði. Þá var í mörgum umsögnum lögð áhersla á að tryggja fjármögnun aðgerða og bent á að reynslan af árangri aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum 2016–2020 sýndi að án fjármagns væri ólíklegt að margar aðgerðanna næðu fram að ganga.

Aðgerðaáætlun geðheilbrigðismála var kostnaðarmetin í heilbrigðisráðuneytinu og ég vildi koma sérstaklega inn á það í lok framsögu að ég tel afar brýnt að þetta sé kostnaðarmetið. Það er ekki algengt að þingsályktunartillögur komi hér kostnaðarmetnar. Þetta er hins vegar ekki klappað í stein og kannski gróft. Það eru sex aðgerðir sem við erum þegar farin af stað með og munum klára og eru innan ramma á þessu ári. Uppsöfnunaráhrif fjárlaga eru í eðli sínu þannig að svona áætlanir verða afturþungar og hlaðast upp. Ef okkur tekst vel til með allt, m.a. að fjölga starfsfólki og fara í þekkingarsetur og margar mjög metnaðarfullar aðgerðir hér, sem koma kannski ekki á þessu ári eða næsta en verða settar í undirbúning og samvinnu eins og tilgreint er í þingsályktunartillögunni, þá má ætla að þetta verði tæpir 6 milljarðar á fimm ára tímabili.

Ég hef í hyggju að kynna þetta kostnaðarmat fyrir hv. velferðarnefnd þannig að við getum þá áfram unnið með það. Þegar við förum síðan af stað með þær aðgerðir sem eru á þessu ári og greinum þetta betur, og vonandi getur þingið og hv. velferðarnefnd aðstoðað okkur við það, þá getum við sett kannski raunhæfara mat á þetta og sett fram í fjármálaáætlun það sem tókst því miður ekki í akkúrat þessari fjármálaáætlun. Allar þessar sex aðgerðir eru innan ramma á þessu ári, þ.e. ef við náum þessari þingsályktunartillögu fram í þinginu og náum að klára hana á þessu þingi sem vonandi gerist. Þetta er mjög mikilvæg áætlun.

Ég kem kannski hingað aftur, hæstv. forseti, en segi hér og nú að ég hafi gert grein fyrir meginatriðum í þessari þingsályktunartillögu og leyfi mér að leggja til að henni verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.