Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni spurningu sem er í raun og veru mögnuð. Ég ætla að taka tvennt út úr þessari spurningu. Það er annars vegar það að maður tapar oft þolinmæðinni fyrir því að ná árangri. Manni finnst þetta gerast hægt. Fyrst samþykkjum við stefnu og svo förum við að vinna að aðgerðaáætlun og hún er á mjög breiðum grunni. Það er mikill kostur við vinnuna við þessa aðgerðaáætlun. Ég horfi svolítið á þetta hefðbundna stefnumótunarferli þegar við fjölluðum um sýnina fyrir ári síðan og við getum lesið um þessa framtíðarsýn hérna á bls. 14 í greinargerðinni. Hún er að mínu viti góð af því að hún er einföld:

„Geðheilsa Íslendinga verði bætt með því að tryggja aðgengi að skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggir á bestu viðurkenndu þekkingu og nýsköpun.“

Svo rammar hún inn þessar fjórar megináherslur og svo 27 undirmarkmið sem er aðgerðahlutinn, framkvæmdin. Maður verður alltaf að halda trúnni og halda í leikgleðina, af því að hv. þingmaður kom hér inn á gleðina, af því að þetta er þungt, okkur vantar fólk og það eru biðlistar og við ræðum þá gjarnan hér. Maður vill sjá árangur, hraðar og betur. Það sem ég sé sem jákvæða þróun, og birtist í undirbúningnum að þessari aðgerðaáætlun, er þetta breiða samráð sem einkennir undirbúninginn að aðgerðaáætluninni og til framtíðar og þessa sýn um notendamiðaða nálgun. Ég er sannfærður um að loksins þegar við stígum það skref að setja á fót — og ég vind mér í það um leið og við erum búin að samþykkja þetta og er byrjaður að undirbúa það — og stofna geðráð verði það mjög mikilvægt skref í þessu.