Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki ófjármagnað, það eru fjármunir inni og eru á þessu ári á fjárlögum. Það eru sex aðgerðir sem við erum farin af stað með og ætlum að klára og eru fjármagnaðar á þessu ári og því næsta. Það er að þróa skólaheilsugæslu í framhaldsskólum, með sérstakri áherslu á geðrækt og forvarnir. Þar eru 96 milljónir árlega næstu þrjú ár. Það þarf aðeins að taka betur utan um kostnaðarmatið og hvar fjármunirnir eru fyrir og hverju þarf að bæta við af því að þetta er ekki alveg klappað í stein og bara kostnaðarmetið þannig séð í heilbrigðisráðuneytinu. Síðan er að stofna geðráð og það er allt innan fjárheimilda. Svo er að skilgreina hlutverk og verkefni veitenda geðheilbrigðisþjónustu, það er innan fjárheimilda. Síðan vil ég nefna hér að dýrasti hlutinn í þessu er auðvitað að fjölga starfsmönnum og að hluta til er það inni á fjárlögum, til að mynda í heilsugæslunni. En eitt stærsta verkefnið hér er þekkingarsetrið. (Forseti hringir.) Það þarf að vinna í samvinnu við háskólann. Það væri mjög fróðlegt að sjá t.d. ábatagreiningu á slíku þekkingarsetri. En það eru fjölmörg atriði sem gera það að verkum (Forseti hringir.) að kostnaðarmatið er ekki nægjanlegt, það þarf að leggjast aðeins betur yfir það, skulum við segja.