Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir þetta andsvar. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi fagstjórann. Í kjölfarið á þeim ágreiningi sem skapaðist við það að gera þær skipulagsbreytingar sem fólust í því að leggja þá stöðu niður þá hitti ég sálfræðinga af heilsugæslunni og svo fór ég yfir málið með forstjóra heilsugæslunnar og ég veit ekki betur en að um þær skipulagsbreytingar sem urðu hafi náðst sátt þó að það hafi verið ágreiningur um þetta efni á sínum tíma. Það kann að vera að ég sé kannski ekki með nýjustu upplýsingar um það. Ég held að þessi aðgerð sem hv. þingmaður hins vegar kemur inn sé bráðnauðsynleg, við þurfum að fjölga … [Hljóð úr síma í þingsal.]

(Forseti (LínS): Það fór eitthvað sjálfvirkt af stað.) Ég er að hugsa um að gera hlé á ræðu minni, hæstv. forseti.

(Forseti (LínS): Forseti biðst afsökunar.)

Þetta er aðgerð sem kom inn eftir athugasemd, það er rétt, og snýr að því að efla nærþjónustu og fyrsta stigs þjónustu og í því felst að við þurfum að fjölga. Við höfum fjölgað sálfræðingum á þessu þjónustustigi og ég held að við þurfum að fjölga þeim enn þá meira. En ég myndi alveg þiggja það ef hv. þingmaður er með nýjustu upplýsingar því þetta hefur ekki komið á borð til mín nýlega. Það er svolítið langt síðan þessi skipulagsbreyting varð og þá fórum við í gegnum þetta. En ábyrgðin er algerlega mín og það er rétt sem hv. þingmaður fór yfir. Við erum auðvitað með það þannig að það er yfirmanna að manna og skipuleggja starfsemina. En það er alltaf á mína ábyrgð og ég er alltaf viljugur til að fara yfir málið með hlutaðeigandi aðilum.