Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[18:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Já, það verður fróðlegt að heyra af þeim fundi velferðarnefndar varðandi mat á einstaka þáttum en aðgengi að sálfræðiþjónustu er auðvitað býsna rýrt, því miður, og það eru mjög langir biðlistar, það er mjög erfitt að komast þar að. Ég hef líka kannski smá áhyggjur af þeim sem eru að glíma við geðrænar áskoranir og hafa fengið ávísað lyfjum, hvað eftirfylgni þeirra er af skornum skammti. Ég er í rauninni ekki að svara andsvari hæstv. ráðherra en ég vildi bara flagga þessu líka vegna þess að þegar aðgengið að sálfræðiþjónustu og aðgengi að geðlæknum er af svona skornum skammti, eins og raun ber vitni á Íslandi í dag, þá er hætta á að fólk festist í vanlíðan. Ég held að það sé ástæða þess að fólki með geðrænar áskoranir hefur fjölgað svona ofboðslega í hópi öryrkja, af því að fólk festist í þessu af því að okkur skortir — og nú kem ég inn á annað áhugasvið hæstv. ráðherra sem ég deili líka með honum — forvarnir, okkur skortir eftirfylgni. Þegar kerfið grípur einstakling í eitt skipti þá er enginn sem fylgir viðkomandi eftir. Sú eftirfylgni er í rauninni algerlega á forsendum þess sem býr við geðrænar áskoranir. Sá einstaklingur, (Forseti hringir.) sem mögulega eru ekki heilbrigðismenntaður, á að hafa einhverja hugmynd um hvað gerist næst. Það er eitthvað sem við þurfum líka að taka á.