Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[10:37]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Dómsmálaráðherra Íslands, Jón Gunnarsson, braut gegn þingskapalögum þegar hann bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem þingið óskaði eftir á grundvelli 51. gr. þingskapalaga. Með þessu athæfi sínu braut ráðherrann gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi. Hann braut gegn upplýsingarétti Alþingis Íslendinga. Það er grafalvarlegt brot gegn þinginu, brot sem þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst.

Réttur þingsins til að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf til að sinna störfum sínum er skýlaus, víðtækur og gríðarlega mikilvægur. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og það má ekki leyfa ráðherrum að taka sér það vald að ákveða hvaða upplýsingar þingið eigi að fá og hverjar ekki. Ef við samþykkjum það einu sinni erum við að setja fordæmi sem er ekki bara hættulegt heldur beinlínis andstætt stjórnskipan lýðveldisins Íslands, enda er upplýsingaréttur þingsins tryggður í 54. gr. stjórnarskrárinnar.

Þess vegna leggjum við þingflokksformenn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins og Viðreisnar, fyrir hönd okkar flokka, til vantraust á hendur dómsmálaráðherra, Jóni Gunnarssyni, til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands. Um það snýst þessi tillaga, ekkert annað. Hún snýst ekki um veitingu ríkisborgararéttar, hún snýst ekki um Útlendingastofnun, hún snýst ekki um útlendinga, hvað sem hver segir. Allra síst snýst hún um dylgjur dómsmálaráðherra í garð þingmanna allsherjar- og menntamálanefndar, sem er ein ógeðfelldasta afvegaleiðing sem ég hef orðið vitni að. Þessi tillaga snýst um það að ráðherra sem brýtur jafn freklega gegn upplýsingarétti Alþingis og þar með sjálfu þingræðinu eins og hér er gert, getur ekki, á ekki og má ekki njóta trausts þess sama Alþingis.

Forseti. Tölum aðeins um þrískiptingu ríkisvalds. Ríkisvaldið skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Eitt helsta hlutverk Alþingis, sem fer með löggjafarvaldið á Íslandi, er eðli máls samkvæmt að setja lög. Alþingi getur einnig samþykkt ályktanir á hendur ríkisstjórninni þar sem ráðherrum er falið að vinna ákveðin verkefni fyrir þingið og loks hefur þingið mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Okkur þingmönnum er falið þetta hlutverk í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, æðstu lögum landsins. Framkvæmdarvaldið hefur það hlutverk að framkvæma lögin og sinna þeim verkefnum sem þingið felur því með lögum eða ályktunum. Ráðherrar í ríkisstjórn eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins í umboði meiri hluta Alþingis hverju sinni. Loks sker dómsvaldið úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum og eftir atvikum hvort lög sem Alþingi hefur sett standist stjórnarskrána, að ógleymdu hlutverki þess gagnvart almenningi, svo sem að skera úr um deilumál borgaranna og dæma í sakamálum.

Ég ber hér á borð þessa einföldu skýringu á grundvallarstjórnskipun Íslands, vegna þess að það ber á því að ráðherrar líti svo á að framkvæmdarvaldið sé hin heilaga þrenning, að ráðherra sé í raun löggjafi, framkvæmdastjóri og dómari í eigin sök og þurfi ekki að svara fyrir ákvarðanir sínar nema fyrir guði almáttugum og kjósendum á fjögurra ára fresti. Það sem verra er, þá er engu líkara en að sumir þingmenn haldi að þetta sé rétt hjá þeim. Það er ekki svo, virðulegi forseti.

Ráðherrum í ríkisstjórn ber að fara að lögum og þeim ber alveg sérstaklega að fara að stjórnarskrá lýðveldisins sem segir þeim að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn — þingbundinni stjórn. Þegar ráðherrar brjóta gegn þrískiptingunni, eins og dómsmálaráðherra hefur svo bersýnilega gerst sekur um, þá eiga þeir að víkja. Alþingi getur ekki og má ekki treysta ráðherrum sem hlýða ekki þinginu. Hér er ekki nóg fyrir stjórnarliða að segja, eins og þau munu eflaust mörg segja í þessari umræðu, að þau styðji ríkisstjórnina og þess vegna styðji þau ráðherra sem brýtur lög. Það er ekki boðlegur málflutningur í lýðræðisríki.

Forseti. Til að Alþingi geti unnið og samþykkt lög þarf það alla jafna að afla gagna frá stjórnvöldum. Þess vegna er 54. gr. stjórnarskrárinnar alveg skýr með það að Alþingi megi afla þeirra gagna sem það þarf frá stjórnvöldum til að geta sinnt sínum mikilvægu löggjafarstörfum. Þessi gagnaöflun fer m.a. fram í fastanefndum þingsins sem sjá um úrvinnslu frumvarpa áður en þau verða að lögum. 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga er nánari útfærsla á 54. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum, þ.m.t. sjálfstæðum stjórnvöldum,“ — og takið nú eftir — „eða að teknar verði saman upplýsingar út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarmanna þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar.“

Dómsmálaráðherra Íslands beitti sér gegn því að stjórnvaldið Útlendingastofnun afhenti allsherjar- og menntamálanefnd gögn sem öll nefndin krafðist að stofnunin tæki saman fyrir nefndina út af máli sem hún hafði til umfjöllunar. Það mál var frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Þetta hefur dómsmálaráðherra játað í beinni útsendingu oftar en einu sinni, að hafa bannað Útlendingastofnun að hlýða þinginu. Hvers vegna? Vegna þess að honum finnst að Útlendingastofnun eigi ekki að taka saman þessar upplýsingar. Hvers vegna finnst honum það? Vegna þess að honum finnst að þingið eigi ekkert með að setja lög um ríkisborgararétt. En ráðherrann getur ekki valið hvaða lögum hann eða undirstofnanir hans eiga að fylgja. Ef hann er ósáttur við lögin eins og þau eru verður hann að reyna að breyta lögunum, ekki brjóta þau.

Forseti. Stjórnarliðar munu nú væntanlega, því miður, koma hér upp hver á fætur öðrum og reyna sitt ýtrasta til að afvegaleiða umræðuna og koma sér hjá því að ræða þetta alvarlega brot ráðherrans gegn þingræðinu. Þau munu tala um hvað veiting ríkisborgararéttar sé umdeilt fyrirbæri. Þau munu tala um upphlaup og að við séum öll bara að misskilja þetta mál. Þau munu segja að það standi hvergi berum orðum í lögfræðiáliti skrifstofu Alþingis að Jón Gunnarsson hafi brotið lög. Þau munu benda í allar áttir aðrar en að augljósu lögbroti ráðherra sem hann hefur játað, ekki einu sinni heldur oftar, að hafa framið vegna þess að honum líkar ekki lögin sem hann braut. Þau munu reyna að láta þessa umræðu snúast um flóttafólk, útlendinga og ríkisborgararétt, en þessi tillaga um vantraust á hendur dómsmálaráðherra snýst ekki um þessa útúrsnúninga og þau vita það vel. Þetta mál snýst um það að það má ekki leyfa ráðherra í ríkisstjórn Íslands að komast upp með það að neita að afhenda Alþingi þau gögn sem þingið krefst og þarf til þess að sinna sínu starfi.

En dómsmálaráðherra Íslands er ósammála. Hann telur sig þess umkominn að meta sjálfur hvaða upplýsingar þingið megi og eigi að fá og hverjar það eigi ekki að fá fyrr en einhvern tíma seinna, þegar og ef honum hentar. Sá þingmaður, hvar í flokki sem hann stendur, sem ákveður að verja þetta; verja hið óverjandi, verja það að ráðherra, hvar í flokki sem hann stendur, geti hunsað þingræðið og stjórnarskránna, hunsað lögin og brotið þau eftir eigin geðþótta af því að honum finnst að það sé bara allt í lagi — hver sá þingmaður sem ekki leggur sitt af mörkum til að koma slíkum ráðherra frá völdum er annaðhvort sannfærður um að einmitt þannig eigi hlutirnir að ganga fyrir sig í lýðræðisríki eða tilbúinn að ganga gegn eigin sannfæringu um hið gagnstæða; tilbúinn að fórna eigin sannfæringu, því eina sem hann er bundinn af samkvæmt stjórnarskránni, á altari flokkshollustu og sérhagsmuna. Sá þingmaður, sem er annaðhvort af þessu, á ekkert erindi á Alþingi.

Það vitum við öll innst inni, hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar og forseti. Ég er sannfærð um að langflest ykkar hafi þá sannfæringu að ráðherrar eigi að fara að lögum og rækja skyldur sínar gagnvart Alþingi og að þeir sem kjósa meðvitað að gera hvorugt eigi ekkert erindi í ríkisstjórn. Ég bið ykkur að fylgja þeirri sannfæringu.

Þegar við samþykkjum þetta núna, virðulegi forseti — ef við samþykkjum þetta í þetta sinn, erum við um leið að samþykkja upplausn á þrískiptingu valdsins. Þá erum við að samþykkja að ríkisstjórnin vinni endanlegan sigur á þingræðinu á Íslandi, að hún og framtíðarríkisstjórnir, athugið það, hv. þingmenn, geti kippt þingræðinu úr sambandi þegar þeim hentar. Þá erum við að samþykkja að Ísland sé ekki og verði ekki lýðveldi með þingbundinni stjórn heldur eitthvað allt annað og verra.