Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum hóf dómsmálaráðuneytið samtal við Alþingi um þá stöðu sem var komin upp varðandi umsóknir um ríkisborgararétt. Við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt hjá Alþingi er óskað eftir umsögnum um hvern og einn umsækjanda frá Útlendingastofnun á grundvelli 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt. Í framkvæmd var þessum umsögnum forgangsraðað fram yfir þær umsóknir sem bárust beint til stofnunarinnar sem eðli máls samkvæmt er stjórnsýsluleiðin. Málsmeðferðartími í stjórnsýsluleiðinni var orðinn mjög langur, meira en heilt ár, og umfang beiðna frá Alþingi jókst.

Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við þennan langa málsmeðferðartíma í stjórnsýsluleiðinni og til að bregðast við því gaf dómsmálaráðherra út þau fyrirmæli að stofnunin ætti að hætta að forgangsraða umsagnarbeiðnum frá Alþingi og í stað þess afgreiða allar umsóknir í þeirri röð sem þær bárust. Þingið fengi því áfram sínar umsagnir en ekki jafn hratt og áður. Umboðsmanni var kynnt um þessa breyttu tilhögun mála og gerði ekki athugasemd við það og síðar lauk málinu og náðst hafði að stytta málsmeðferðartíma í stjórnsýsluleiðinni með hinni breyttu tilhögun. Með þessu fékk Alþingi ekki umbeðnar umsagnir afhentar á sama hraða og áður. Í því skyni að fá umsagnirnar afhentar hraðar ákvað Alþingi að krefjast þess að fá umsagnirnar útbúnar og afhentar með vísan til 51. gr. þingskapalaga innan tiltekinna tímamarka. Ákvæðið byggir á eftirlitsheimild þingsins til að fá afrit af gögnum.

Ágreiningur hefur verið milli ráðuneytisins og þingsins um hvort hægt sé að beita þessari grein til þess að krefjast þess að ný gögn verði búin til. Þann ágreining þarf eðli máls samkvæmt að leiða í jörðu.

IV. kafli laga nr. 51/1991, um þingsköpin, fjallar um eftirlitsstörf Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Í kaflanum er fjallað um valdheimildir Alþingis til að sinna eftirliti og aðhaldi, krefjast skýringa, fá afrit af gögnum o.s.frv. Í þessum kafla er að finna 51. gr. sem veitir fastanefndum þingsins heimild til að krefjast afrits af gögnum og að teknar verði saman upplýsingar í því skyni að sinna eftirliti með framkvæmdarvaldinu. Beiðni þingsins um að fá umsagnir um umsækjendur um ríkisborgararétt snýst ekki um eftirlitshlutverk þingsins. Þá gerir 51. gr. þingskapalaga ekki ráð fyrir að ný gögn verði búin til fyrir nefndarmenn sérstaklega nema í undantekningartilfellum og þá helst yfirlit yfir þau gögn sem leggja á fram.

Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 80/2021 er fjallað nánar um 51. gr. þingskapalaga en þar segir, með leyfi forseta:

„Með breytingunni er lagt til að heimild þingnefndar til þess að krefja stjórnvald, svo sem sjálfstæð stjórnvöld eða sjálfstæðar stjórnsýslunefndir, um upplýsingar verði ekki takmörkuð við afhendingu fyrirliggjandi gagna heldur einnig að teknar séu saman upplýsingar og unnið úr þeim yfirlit eftir atvikum í nýtt skjal fyrir þingnefnd.“

Þarna er vísað til þess að hægt sé að krefjast þess að teknar séu saman upplýsingar og unnin séu yfirlit úr gögnum. Deilt er um hvort þessi grein sé grundvöllur fyrir því að krefja stjórnvald um að vinna umsagnir sem krefjast lögfræðilegs mats fyrir Alþingi. Þessu er skrifstofa Alþingis ósammála, samanber minnisblað sem mikið hefur verið rætt um og vísað til í þessari umræðu. Minnisblaðið tekur ekki á meginröksemd ráðuneytisins um að 51. gr. þingskapalaga geti ekki lagt skyldu á stjórnvöld til að búa til ný gögn nema í ákveðnum undantekningartilfellum. Þar fyrir utan er þessi beiting ákvæðisins í tilefni ríkisborgararéttar ekki í samræmi við eftirlitshlutverk þingsins en ákvæðið er undir þeim kafla laganna.

Miðað við upplegg stjórnarandstöðunnar, um að tilefni tillögunnar sem við ræðum hér um vantraust sé að hæstv. dómsmálaráðherra hafi þverbrotið lög með vísan í umrætt minnisblað, er langt seilst. Stórkarlalegar yfirlýsingar bera þess ekki merki að hv. þingmenn, sem farið hafa mikinn, sýni viðeigandi yfirvegun og hafa uppi málefnalega nálgun á lögfræðilegt viðfangsefni. Fyrir utan þá staðreynd að gögnin hafa verið afhent, þ.e. umræddar umsagnir, og þingið hefur afgreitt ríkisborgararétt með lögum síðan ágreiningurinn hófst í góðri samvinnu okkar hér á þinginu. Hér er einfaldlega uppi réttmætur ágreiningur um túlkun 51. gr. þingskapalaga.

Það er hins vegar ekki sómi að þeirri stöðu sem uppi er og það er sameiginlegt verkefni þingsins og dómsmálaráðuneytisins að leiða í jörð þann ágreining sem uppi er og sýna að við ráðum við það verkefni að endurskoða þetta verklag og skýra löggjöfina sem um þetta gildir því að leiðsögnin í lögunum er sannarlega rýr. Saga veitinga ríkisborgararéttar er óhefðbundin og fleira sem teiknar upp verkefni sem við þurfum einfaldlega að leysa í sameiningu.

Staðreyndin er sú, og þessu er gríðarlega mikilvægt að halda til haga, að Alþingi hefur ekki almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir með Útlendingastofnun. Breyti Útlendingastofnun framkvæmdinni einhliða hefur Alþingi ekki þær yfirstjórnunarheimildir gagnvart stofnuninni sem ráðherrann hefur. Alþingi getur því ekki, í krafti þeirra heimilda, gefið Útlendingastofnun fyrirmæli um hvernig hún hagar framkvæmdinni.

Líkt og ég nefndi hér áðan gerði umboðsmaður Alþingis ekki athugasemd við þetta breytta verklag, svo því sé áfram haldið til haga. Alþingi á að sjálfsögðu rétt á að fá umsagnir Útlendingastofnunar afhentar. Sá réttur er hins vegar fyrst og fremst til staðar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um ríkisborgararétt, óháð 51. gr. þingskapalaga. Alþingi ætti rétt á umsögnunum, jafnvel þótt 51. gr. þingskapalaga væri ekki til að dreifa. Útlendingastofnun getur að sjálfsögðu breytt framkvæmd sinni einhliða og Alþingi getur ekki gefið stofnuninni fyrirmæli um hvernig hún hagar sinni framkvæmd. Alþingi væri þannig að ganga inn á verksvið framkvæmdarvaldsins sem væri á skjön við 2. mgr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds.

Gildandi lög gera ráð fyrir að Alþingi veiti Útlendingastofnun þetta verkefni og það þarf að fylgja þeim lögum nú eða breyta þeim. Þess utan þarf Alþingi ekki að vera með sérstök lög um ríkisborgararétt ef því er að skipta né málsmeðferð í slíkum málum. Alþingi getur í krafti stjórnarskrárinnar og löggjafarvaldsins sett lög hvenær sem er um að einhver hljóti ríkisborgararétt. Sú framkvæmd sem viðhöfð er með þriggja manna undirnefnd, og því ógagnsæi sem sú aðferð býður upp á, er síðan staða sem ég teldi eðlilegt að endurskoða en við erum ekki að ræða hér.

Að þessu sögðu þykir mér augljóst að sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram er langsótt tilraun til að koma höggi á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Við höfum verk að vinna í þessum málaflokki og mörgum öðrum. Ég tel farsælla fyrir land og þjóð að við einbeitum okkur að þeim verkefnum þegar þessu upphlaupi hér í þinginu lýkur.