Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér í dag um vantrauststillögu fulltrúa fjögurra stjórnarandstöðuflokka á hæstv. dómsmálaráðherra. Af þeim ræðum sem fluttar hafa verið í dag má ljóst vera að sú tillaga byggir fyrst og fremst á minnisblaði frá skrifstofu Alþingis um verklag við veitingu ríkisborgararéttar og þeirrar ályktunar sem hv. þingmenn hafa dregið af því að dómsmálaráðherra hafi þar brotið þingskapalög.

Eins og kunnugt er veitir Alþingi ríkisborgararétt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og samkvæmt lögum frá 1952, en hefur hins vegar falið framkvæmdarvaldinu með lögum að kanna umsóknir og veita umsögn um þær til þingsins en það er nú í höndum Útlendingastofnunar. Löggjöf Alþingis um veitingu persónubundinna sértækra réttinda lýtur ýmiss konar sérsjónarmiðum og sker sig þar með frá almennri löggjöf sem Alþingi setur.

Ég vil segja það að hér hafa fallið stór orð því ég tel ekki einsýnt að hér hafi lög verið brotin. Það er alveg ljóst að hér er uppi lögfræðilegur ágreiningur sem snýst um samspil þingeftirlits og skyldu ráðherra til að veita þinginu upplýsingar og einnig um rétt umsækjenda um ríkisborgararétt til að njóta jafnræðis við meðferð mála sinna. Ég tel líka einsýnt að þessi deila getur ekki haldið áfram með þeim hætti sem hún hefur haldið áfram. Verklagi þarf að breyta, skýra réttarstöðuna og það skiptir máli að við gerum nauðsynlegar breytingar, þar með talið að breyta lögum ef þarf, til þess að tryggja að afgreiðslu þessara mála, verklagi og samskiptum Útlendingastofnunar og Alþingis, sé komið í viðunandi farveg, því þessi tilhögun er Alþingi og framkvæmdarvaldinu ekki til sóma.

Ég vil ítreka þá afstöðu mína að ég tel að Alþingi eigi að hafa þá heimild að veita ríkisborgararétt en að sjálfsögðu er mikilvægt að við náum saman um það hvernig það verður gert.

Ég tel hins vegar að þessi vantrauststillaga sem hér er lögð fram og mælt fyrir sé engan veginn nægjanlega vel rökstudd. Ég tel ekki að minnisblað Alþingis skapi grunn fyrir þeim orðum sem hér hafa fallið, hvað þá að þetta minnisblað og þessi umræða hér marki endalok þingræðis á Íslandi. Þessi málflutningur stenst enga skoðun.

Nú er það svo að hv. þingmönnum getur fundist ýmislegt um störf hæstv. ráðherra og það á við um mig líka. Ég leyfi mér að ímynda mér það að auðvitað hafi óviðeigandi ummæli ráðherra hér í þingsal á þriðjudag, þar sem heilindi hv. þingmanna voru dregin í efa, haft einhver áhrif hér um. Ég vil ítreka þá afstöðu mína að þau eiga ekki við í þingsal. Ég vil um leið segja það að mér finnst minnisblað Alþingis ekki vera grunnur að vantrauststillögu fremur en þessi tilteknu ummæli.

Herra forseti. Við vitum það öll sem hér erum í þessum sal að vantrauststillaga er svo sannarlega ekki sett fram af neinni léttúð og þar er ég sammála hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Hún er svo sannarlega ekki meðhöndluð af neinni léttúð af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna enda ekkert skemmtiefni um að ræða. En við vitum það líka sem hér erum að slíkar tillögur eru iðulega settar fram til að kljúfa samstöðu í ríkisstjórn, kannski eðlilega. Ég vil ítreka það hér að ríkisstjórnarsamstarfið stendur styrkum fótum. Áskoranirnar fram undan eru stórar og verkefnin mikilvæg og við hikum ekki við að takast á við þau. Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að þetta minnisblað sem er forsenda fyrir þessari vantrauststillögu skapi engan grundvöll fyrir þeim stóryrðum sem hér hafa fallið. Ég tel þessa tillögu þar af leiðandi ekki nægjanlega ígrundaða, en ítreka að það er full ástæða til að skýra verklag við veitingu ríkisborgararéttar hér á Alþingi og ákveða nánar tilhögun þeirrar afgreiðslu sem þingið hefur þegar falið Útlendingastofnun með lögum þannig að á því sé sá bragur að við getum öll vel við unað.